149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er mér ljúft og skylt að draga til baka hugtakið orðskrúð, ég man ekki nákvæmlega hugtakið sem ég notaði í tengslum við grunngildin fimm í lögum um opinber fjármál. Það sem ég var að hugsa í þeim efnum þegar ég lýsti því á þann hátt var að mönnum er það tamt þegar svona stefnur eru settar. Það á ekki bara við um fjármálastefnuna. Það er sama hvort það eru fyrirtæki úti í bæ þegar menn geta skrollað á milli heimasíðna fyrirtækja og við sjáum oft að gildin sem boðið er upp á eru algjörlega úr sambandi við upplifun fólks af þeim. Það var ekki ill meining á bak við þetta og kannski vanhugsað hugtak.

Það sem er hérna eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi og af umræðunum í dag má svo sem alveg ljóst vera að ýmsir upplifa að einhver þeirra grunngilda séu víkjandi. Ég held að það sé hlutur sem hljóti að koma til skoðunar ef menn fara í gegnum hvernig til hefur tekist, sem ég held að sé vinna sem sé áætluð ef hún er ekki hreinlega komin af stað. Ég þekki það ekki. Alla vega hefur margoft verið talað um að hún sé fyrirhuguð úr þessari pontu og ég held að það hafi verið hæstv. forseti sem hafi verið upphafsmaðurinn að þeim vangaveltum.

Orðið orðskrúð er mér sannarlega ljúft og skylt að draga til baka. Þetta var ekki sagt í neikvæðri meiningu en ég held samt að það sé hollara að tala um hlutina eins og þeir eru, ekki eins og fyrirtækin með heimasíðurnar sínar (Forseti hringir.) sem hafa eflaust fengið einhverja markaðsstofu úti í bæ til að tosa saman þessi fallegu orð.