störf þingsins.
Virðulegur forseti. Þriðji orkupakkinn hefur verið mikið til umræðu. Lýst er yfir ótta við að Ísland missi yfirráð á nýtingarrétti yfir auðlindum sínum, að framsal valds í málinu sé óhóflegt, að málið stangist á við stjórnarskrá og að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar. Það er þess virði að ræða öll þessi atriði í umræðu um þriðja orkupakkann, sem ég vænti að verði einn daginn til umræðu, reyndar líklega á næstunni.
Það sem öll þessi atriði eiga hins vegar sameiginlegt er að þau eru óljós í stjórnskipaninni í dag. Eignarréttur yfir auðlindum hefur verið raunverulegt bitbein áratugum saman. Þar er líka lagaleg óvissa. Framsal valds er á einhverjum fræðilegum stað sem snýst meira um hvaða fræðimönnum þingmenn taka mark á en hvað skrifað er í lagatexta. Stjórnarskrárlegt samhæfi er á endanum einfaldlega ákveðið með atkvæðum þingmanna og engin brú er milli þings og þjóðar önnur en reglulegar eða óreglulegar alþingiskosningar.
Í nýrri stjórnarskrá er að finna lausnir við öllum þessum vandamálum, hverju einu og einasta. Ef ný stjórnarskrá hefði tekið gildi fyrir þriðja orkupakkann og umræðuna um hann fullyrði ég að málið væri löngu afgreitt vegna þess að í fyrsta lagi léki enginn vafi á þjóðareign á auðlindum. Í öðru lagi væru lýðræðislegir öryggisventlar við framsali valds. Í þriðja lagi væri til staðar Lögrétta sem gæti útkljáð stjórnarskrárlegt samhæfi áður en málið væri samþykkt á Alþingi og sem hluti af formlegu ferli þess, í stað þess að þingmenn vísuðu í fræðimenn í þjóðfélaginu eftir þörfum. Í fjórða lagi gætu kjósendur sjálfir kallað til sín mál í þjóðaratkvæðagreiðslu ef allt undangengið myndi klikka.
Þriðji orkupakkinn er áminning og viðvörun, ekki um að EES-samstarfið gangi of langt, það eru önnur EES-mál sem eru kannski merki um það, eða að Ísland sé á leiðinni í ESB eða að missa fullveldi sitt. Hann er áminning um hvernig hlutirnir geta auðveldlega farið í flækju þegar grundvallaratriðin eru trössuð of lengi. Og þau hafa verið trössuð of lengi. Lausnin í þessu máli, eins og í svo mörgum öðrum, er að íhaldsöflin hætti að láta eins og þau séu yfir allar breytingar hafin og drattist til að innleiða nýja stjórnarskrá.