149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

störf þingsins.

[10:07]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Í orðræðunni um loftslagsmál og stjórnvöld heyrast orð eins og aðgerðaleysi og falleinkunn. Það eru orð sem ég tel að séu engum til gagns og ég ítreka að loftslagsmálin krefjast hlutlægni og gagnrýni sem er studd rökum og staðreyndum.

Vissulega verður að gera betur en okkur hefur auðnast og þangað stefnum við öll. Það er langur listi aðgerða sem krefjast aukinnar þátttöku, t.d. bæði sveitarfélaga og stjórnvalda. Í nýjum loftslagslögum eru báðir þessir aðilar skyldaðir til að setja sér loftslagsstefnu. Þetta á líka við um fyrirtækin og það færist vissulega í aukana núna. Þetta á líka við um félagasamtök og almenning og hvort tveggja er á uppleið. Niðursveiflan í hagkerfinu má ekki hamla okkur. Við þurfum að verja þá fjármuni sem eru settir til þessa í ríkisfjármálum. En það þarf líka að auka fjármagnið.

Ég hef íhugað hvort ekki beri að setja á tímabundið flatt loftslagsgjald til hliðar við kolefnisgjaldið, sem er jú að hækka hægt og rólega, annaðhvort á alla skattgreiðendur í landinu eða á notendur jarðefnaeldsneytis, eins og t.d. flugfélög og bílaleigur, einkaaðila og fyrirtæki o.s.frv. Ég bendi á að 1.000 kr. á 250.000 gjaldendur gefa okkur fjórðung úr milljarði, 250 millj. kr. á ári. Þannig að 2.000 kr., 3.000 kr. — menn sjá glögglega hvert ég er að fara.

Ég held að sá tími sé kominn núna, tíu árum áður en við eigum að standa við Parísarsamkomulagið, að við förum virkilega að íhuga þetta. Menn kvarta oft undan sköttum en þetta væri ákaflega jákvæður skattur. Svo að ég segi við ykkur öll hér: Hugsið málið með mér.