störf þingsins.
Herra forseti. Undanfarnar vikur hér í þingsal hafa einkennst af miklu og óskiljanlegu málþófi Miðflokksins sem engum tilgangi hefur þjónað, allra síst almannahagsmunum. En svona eru leikreglurnar.
Í gærdag náðist þó annað stórt og mikilvægt mál á dagskrá, endurskoðun fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Það mál er þannig vaxið að stjórnarandstaðan ræddi það í nokkra klukkutíma og því miður fóru andsvör að mestu fram við aðra stjórnarandstöðuflokka því að stjórnarliðar, utan örfárra, sáu sér ekki fært að taka þátt í umræðunum — og enginn hélt ræðu, utan framsögumanns.
Það er miður því að þetta er stórt og mikilvægt mál. En nú er fyrri umr. um það lokið og málið komið til nefndar, allt eins og vera ber.
Nú bar svo við að á meðan á umræðunni stóð töldu einstaka stjórnarliðar, þar með talið tveir ráðherrar, sér sæma að tengja þessa nokkurra klukkutíma umræðu við margra vikna málþóf Miðflokksins og gerðu þar með lítið úr mikilvægi þessa máls og starfi þingsins almennt. Látum vera að stjórnarliðar hafi ekki treyst sér í þessa umræðu, að þeir hafi viljað að hún færi fyrst og fremst fram í þögn, að afgreiðsla þessa vandræðalega máls yrði helst engin. Þeim varð ekki að ósk sinni af því að við í stjórnarandstöðunni sinntum skyldum okkar. En að viðbrögð stjórnarliða hafi verið að spyrða þá stjórnarandstöðuflokka sem hafa stutt haltrandi ríkisstjórn með ráðum og dáð í góðum málum við þetta yfirgengilega málþóf Miðflokksins — það, herra forseti, er ekki bara ósatt, ekki bara ómaklegt og sumir myndu segja ómerkilegt, það er verulega óklókt.