149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

störf þingsins.

[10:16]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Iðnaður er mjög umfangsmikill í íslensku atvinnulífi. Greinin er fjölþætt og snertir nær alla þætti hagkerfisins. Það er víst að iðnaður hefur átt stóran þátt í núverandi efnahagsuppsveiflu og skapað um fjórðung af störfum sem myndast hafa síðan árið 2010. Atvinnuleysi hefur minnkað stórlega síðan 2008 eftir efnahagshrunið og á iðngreinin stóran þátt í því og hefur skilað þriðjungi hagvaxtarins á þessum tíma.

Samkeppnishæfni Íslands í greininni við önnur lönd hefur farið vaxandi á síðustu árum. Þar má örugglega gera enn betur og er verðmætasköpun þar stór þáttur. Sagt er að hugvit og hagvöxtur haldist í hendur. Til að auka verðmætasköpun hafa frændur okkar Danir náð miklum árangri á þessu sviði með markvissri uppbyggingu um langa tíð. Þeir stofnuðu hönnunarmiðstöð árið 1978 með góðum árangri og í upphafi var markmiðið að auka vitund og hönnun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hönnunariðnaður Dana má segja að hafi fest sig í sessi og er í sífelldri þróun og veitir fyrirtækjum og stofnunum samkeppnisforskot. Gætum við Íslendingar tekið þá okkur til fyrirmyndar.

Gott orðspor landa eykur verðmæti vara frá landinu og almenningur í landinu lítur ekki síst á Ísland sem brautryðjanda á alþjóðavettvangi en á sviði loftslagsmála gætum við náð forystu ef við héldum rétt á spilunum. Við gætum aukið orðspor okkar með því að taka forystu í loftslagsmálum. Sú þróun myndi hafa áhrif á samkeppnishæfni ríkja þar sem fjármagn og fólk og fyrirtæki horfa í meira mæli til þeirra sem standa sig vel á þessu sviði. Þarna eigum við sóknarfæri sem myndi koma okkur betur á alheimskortið. Stefna okkar í Miðflokknum hefur verið að byggja undir iðn- og tæknigreinar, ekki síst með aðgengi að námi og þá sérmerktu fjármagni til þess arna.