störf þingsins.
Virðulegur forseti. Ég er í rusli í dag vegna þess að ég ætla að tala um það ófremdarástand sem er í rusl- og sorpmálum okkar hér á landi. Ástandið á urðunarstöðum hefur verið töluvert í umræðunni á síðustu vikum, enda hræðilegt að sjá myndir frá Fíflholti þar sem sorpið hefur fokið víða. Ekkert plokk vinnur á slíkri mengun.
En það eru fleiri urðunarstaðir í fréttum. Nú lítur út fyrir að stærsti urðunarstaður landsins sé í miklum vandræðum. Það er Álfsnesið. Þessi urðunarstaður er í mesta návígi við þéttbýli og í gegnum árin hefur lyktarmengun truflað íbúa Mosfellsbæjar, en urðun hefur verið í Álfsnesi allt frá árinu 1991.
Árið 2013 gerðu eigendur Sorpu, sem eru sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu, með sér samkomulag um að urðun skyldi hætt þar árið 2020, enda hafa íbúar Mosfellsbæjar í býsna langan tíma, 30 ár, þolað urðun í sínum bakgarði. En nú heyrum við að líkur séu á því að ekki sé hægt að standa við þetta samkomulag og er það algjörlega óásættanlegt. Ástæðan er sú að enn hefur ekki fundist nýr urðunarstaður því enginn vill slíkt í sinn bakgarð. Það er nú ekki svo að við Íslendingar eigum ekki töluvert af landi og því ótrúlegt að í öll þessi ár hafi ekki fundist önnur lausn.
Nú ætla ég ekki bara að vera svartsýn því að loksins hillir undir að langþráð gas- og jarðgerðarstöð rísi í Álfsnesi og mun hún draga verulega úr urðun sem er gríðarlega mikilvægt umhverfismál. En gas- og jarðgerðarstöð breytir ekki þeirri staðreynd að enn mun þurfa að urða það sem ekki passar inn í slíka stöð. Einnig er nauðsynlegt að hér á landi sé a.m.k. ein öflug brennslustöð til að taka á móti úrgangi sem ekki er hægt að endurvinna eða eyða með öðrum hætti.
Virðulegur forseti. Ég óttast mjög að í úrvinnslumálum okkar vanti heildaryfirsýn þar sem verkefnið er á herðum sveitarfélaga og því miður hefur ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, tekist nógu vel upp með samstarf milli landshluta í þessum efnum. (Forseti hringir.)
Virðulegur forseti. Er ekki skynsamlegt að ríkisvaldið taki yfir þetta mikilvæga umhverfismál og tryggi að hér á landi séu til staðar umhverfisvænar lausnir fyrir úrganginn okkar? (Forseti hringir.) Einkaframtakið, nýsköpun og nýjar leiðir geta án efa nýst í þessum efnum en hugsa þarf málin heildstætt fyrir landið allt.