149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

störf þingsins.

[10:23]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Hér í dag á að afgreiða til velferðarnefndar frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, ef allt gengur eftir. Í bréfi sem okkur þingmönnum barst í gær frá Öryrkjabandalaginu segir að það sé vissulega jákvætt að lækka eigi skerðingarhlutfall vegna ákveðinna tekna en jafnframt er bent á að skerðingarhlutfallið verði enn of hátt.

Ég vil taka undir það sjónarmið og það sem meira er: Þetta er sett fram sem einstakur liður og engan veginn hægt að átta sig á hver stefnan er í framhaldinu. ÖBÍ bendir á að betra hefði verið að halda framfærsluviðmiðunum óbreyttum sem þýðir að þeir einstaklingar sem aðeins hafa strípaðan örorkulífeyri þurfa enn að bíða.

Nú er það orðin stór spurning í mínum huga hvernig í ósköpunum sé hægt að horfa alltaf fram hjá þessum hópi. Mér finnst mjög miður að ekki sé komið til móts við akkúrat þessa einstaklinga. Það er ekki nógu gott að tillaga um breytingu á endurreikningi nái aðeins til ákveðinna bótaflokka og það er mjög mikill galli á því að hún nái ekki til framfærsluuppbótar. Það er ein helsta hindrun örorkulífeyrisþega við að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Það er ólíðandi að fólk þurfi að greiða með sér til að komast aftur inn á þennan sama vinnumarkað.