149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

störf þingsins.

[10:24]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Sóun tekur á sig ýmsar birtingarmyndir. Fyrir nokkru greindi Fréttablaðið frá því að það töpuðust u.þ.b. 400 gígavattstundir af raforku í flutningi raforku frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda. Sóunin hefur aukist u.þ.b. 7% á milli ára. Í viðtali sem blaðið átti við Sverri Jan Norðfjörð, formann raforkuhóps orkuspárnefndar og framkvæmdastjóra þróunar- og tæknisviðs Landsnets, kom fram að það eru gríðarleg verðmæti sem við sóum. Orðrétt sagði Sverrir Jan, með leyfi forseta:

„Við höfum verið að auka framleiðsluna jafnt og þétt síðustu ár en höfum ekki staðið okkur nægilega vel að byggja upp flutningskerfið.“

Mikið hefur verið rætt um matarsóun og annað í þeim dúr, þar sem keppst er við að nýta matvæli og vekja fólk til umhugsunar um þau verðmæti sem fara til spillis. Því þurfum við einnig að fara að horfa til raforkunnar, herra forseti.

Af hverju töpum við orku þar? Vegna þess að flutningskerfi raforku getur ekki tekist á við flutningana. Flutningstapið, sóunin, jafngildir Svartsengi.

Ef við setjum það í annað samhengi má gera ráð fyrir því að fjárhagslegt tap sé í kringum 2,5 milljarðar á ári, a.m.k. 2,5 milljarðar. Svo höldum við áfram að ræða þriðja orkupakkann eins og enginn sé morgundagurinn en látum okkur í léttu rúmi liggja að árlega sóum við 2,5 milljörðum vegna lélegs flutningskerfis. Og okkur hefur ekki enn þá tekist að gera það sem við eigum að gera, sem er að tryggja jafnt raforkuverð fyrir alla landsmenn.