störf þingsins.
Herra forseti. Miklar breytingar eru að verða í alþjóðamálum, hafa verið að gerast á síðustu áratugum og þau eru að breytast hraðar og í stærri skrefum. Ég hlustaði á stuttan bút úr viðtali við fyrrverandi formann breska verkamannaflokksins, Tony Blair, sem var birt á síðu The Independent þar sem hann er að ræða þessa breyttu heimsmynd. Hann ræðir hana í því samhengi að Bretar eru nú að ganga úr Evrópusambandinu. Hann veltir því upp að menn horfist ekki í augu við það að nú eru að verða til kannski þrjú stórveldi sem eru auðvitað Bandaríkin, Kína og hugsanlega Indland. Síðan ræddi hann um völd og áhrif í heiminum og að smáríki á borð við Bretland, Þýskaland og Frakkland mættu sín lítils í þessari nýju heimsmynd. Hinar stóru blokkir hafa mikil völd, fólk, hervald og tækni. Það væri því fullkomin sjálfsafneitun hjá Bretum að halda að þeir stæðu sig betur einir og sér en með því að leggja saman krafta sína með öðrum ríkjum í Evrópu til þess að á þau verði hlustað og þau geti haft áhrif en verði ekki leiksoppar þessara stórvelda. Mér varð hugsað til Íslands.