149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:33]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Frumvarp þetta hefur það að meginmarkmiði að draga úr áhrifum annarra tekna en bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Í samráðshópi um breytt framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu, sem skilaði nýlega skýrslu sinni og tillögum, var rætt um nauðsyn þess að afnema sérstöku framfærsluuppbótina. Það hefur þegar verið gert hjá ellilífeyrisþegum, en með lögum nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, voru þrír bótaflokkar, ellilífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót vegna framfærslu, sameinaðir í einn nýjan bótaflokk, ellilífeyri. Hins vegar er talið fara best á því að slík viðamikil breyting bótakerfisins verði gerð samhliða breyttu kerfi við mat á starfsgetu einstaklinga með skerta starfsgetu. Slík kerfisbreyting er í senn umfangsmikil og flókin og krefst tímafreks undirbúnings og er mikilvægt að vandað sé til verka. Það er hins vegar brýnt að gera nú þegar breytingar á sérstakri uppbót vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu.

Virðulegur forseti. Sérstök framfærsluuppbót sem kveðið er á um í lögum um félagslega aðstoð hefur verið greidd til viðbótar örorku- og endurhæfingarlífeyri þegar heildartekjur lífeyrisþega eru undir tilteknu viðmiði, allt frá því síðla árs 2008. Þegar heildartekjur lífeyrisþega hækka hefur uppbótin lækkað á móti. Þetta er það sem í daglegu tali hefur verið kallað króna á móti krónu skerðing. Þau ákvæði sem haft hafa þessi áhrif hafa talsvert verið gagnrýnd í opinberri umræðu, m.a. hefur verið gagnrýnt að þetta fyrirkomulag dragi úr hvata lífeyrisþega til að afla sér tekna. Þá hefur einnig komið fram gagnrýni á að bótaflokkurinn aldurstengd örorkuuppbót teljist að fullu til tekna við mat á þörf fyrir greiðslu sérstakrar uppbótar vegna framfærslu. Þessi bótaflokkur er uppbót á lífeyri til þeirra sem eru ungir að árum þegar þeir greinast með örorku.

Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum laganna um félagslega aðstoð um sérstaka uppbót til framfærslu þannig að lækkað verði það hlutfall af tekjum lífeyrisþega sem hefur áhrif á útreikning sérstöku framfærsluuppbótarinnar. Þar með verður svokölluð króna á móti krónu skerðing uppbótarinnar afnumin í þeirri mynd sem hún hefur verið hingað til. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar munu því t.d. geta aukið atvinnutekjur sínar án þess að sérstaka framfærsluuppbótin lækki um krónu á móti krónu, eins og talað hefur verið um. Sömuleiðis er dregið úr áhrifum aldurstengdu örorkuuppbótar hennar við mat á því hvort lífeyrisþegi hafi þörf fyrir sérstöku framfærsluuppbótina.

Enn fremur er það markmið með frumvarpinu að auka sveigjanleika við meðferð atvinnutekna lífeyrisþega við útreikning lífeyrisgreiðslna á þann hátt að það verði valkostur að tilfallandi eða tímabundnar atvinnutekjur hafi eingöngu áhrif á útreikning bóta í þeim mánuðum sem þeirra er aflað en skerði ekki rétt til bóta í öðrum mánuðum.

Fram hefur komið að gildandi fyrirkomulag þykir í mörgum tilfellum vera ósanngjarnt og getur leitt til þess að skuld myndist við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar þegar endanlegar tekjur ársins liggja fyrir. Samkvæmt gildandi lögum er tekjum fólks sem metið hefur verið til örorku en fær t.d. ekki tímabundið starf, jafnað niður á alla mánuði ársins og þá skiptir ekki máli hvort viðkomandi fékk lífeyrisgreiðslur í þeim sömu mánuðum eða ekki. Þessar tekjur geta þannig leitt til þess að skuld myndist vegna ofgreiddra bóta en unnt væri að koma í veg fyrir slíkt með því að telja atvinnutekjur viðkomandi einungis honum til tekna í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Í þessu frumvarpi er sú breyting á meðferð atvinnutekna lögð til. Þessi breyting kann þó að leiða til þess að bætur ársins verði lægri í sumum tilvikum en samkvæmt gildandi reglu. Þess vegna er lagt til að við endurreikning bóta þegar endanlegar tekjur ársins liggja fyrir verði gerður samanburður á útreikningi greiðslna hvers mánaðar annars vegar og miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað og að þeirri reglu verði beitt sem leiðir til hærri greiðslna. Er þannig tryggt að enginn fái lægri greiðslur við þá breytingu sem hér er lögð til. Þá er lagt til að eingreiðslur, þ.e. orlofs- og desemberuppbætur, verði undanskildar við mat á þörfum fyrir sérstöku framfærsluuppbótina.

Auk þess sem hér hefur verið lýst er í frumvarpinu lagt til að ákvæði reglugerðar verði færð í lögin sem og upphæðir uppfærðar.

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram miða breytingar þær sem hér hefur verið lýst aðallega að því að bæta möguleika lífeyrisþega til að auka tekjur sínar með virkri þátttöku á vinnumarkaði. Sveigjanleiki er aukinn og svokölluð króna á móti krónu skerðing er felld úr gildi í þeirri mynd sem hún er í í dag. Er þetta í samræmi við þær tillögur sem fram hafa komið um nýtt greiðslukerfi vegna skertrar starfsgetu um að dregið verði úr vægi atvinnutekna sérstaklega. Eru þær breytingar sem felast í frumvarpinu þannig hugsaðar sem nokkurs konar brú yfir í nýtt greiðslukerfi vegna skertrar starfsgetu þar sem áhersla verður lögð á möguleika fólks til að auka ráðstöfunartekjur sínar með þátttöku á vinnumarkaði þar sem dregið verði úr skerðingum bóta vegna tekna.

Gert er ráð fyrir að frumvarp hvað það varðar, um breytt framfærslukerfi. verði lagt fram á næsta löggjafarþingi þar sem stigin verða stærri skref til breytinga á núverandi kerfi.

Ég hef lokið máli mínu en ég þykist vita að það verði bæði andsvör og fleiri ræður og mun ég reyna að svara því sem fram kemur þar. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þetta mál sent til hv. velferðarnefndar.