149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:41]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þessa fyrirspurn. Varðandi framfærsluuppbótina, sem er fyrri hlutinn af þessu og ráðgert er að fari í 2,5 milljarða, er gert ráð fyrir að það verði afturvirkt til 1. janúar 2019. Og þegar búið verður að samþykkja þetta frumvarp geti Tryggingastofnun keyrt afturvirkt leiðréttingu á þeim skerðingum.

Varðandi seinni þátt frumvarpsins, sem lýtur að því að jafna þetta á milli, horfa til mánaða frekar en árs, verður horft til þess við uppgjör á álagningu 2020 sem er vegna ársins 2019. Þegar farið er í álagningu 2020 er það gert aftur í tímann, til ársins 2019, alveg eins og álagningin 2019 er í rauninni fyrir árið 2018. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.

Varðandi það að ekki sé nóg að gert. Ja, við erum með 2,9 milljarða til ráðstöfunar á fjárlögum yfirstandandi árs og þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að ráðstafa öllu því fé.