149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. En hefur ráðherra gert útreikninga á því hverju þetta skilar? Ef við horfum á upphæðirnar sem verið er að ræða um, þá eru í endurhæfingarlífeyri að meðaltali 25.800 kr. á mánuði og hjá örorkulífeyrisþegum að meðaltali 24.470 kr. á mánuði. Það eru mjög lágar tölur. Ef við setjum það í prósentusamhengi þá er þarna um að ræða eiginlega bara smáaura vegna þess að margir eru með minna og sumir með meira. Þar af leiðandi væri gott að fá upplýst hjá ráðherra: Er hann búinn að reikna út hvað þeir fá sem eru í meðaltalinu? Hvað fá þeir sem eru undir meðaltali? Og hvaða aukningu fá þeir sem eru með yfir meðaltali, þ.e. hverju halda þeir eftir af þeim smánarbótum sem taldar eru upp hér, rétt um 24.000 kr.?