149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:45]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að láta það vera að gagnrýna upphæðirnar og það að við ættum að vera að ganga mun lengra en lagt er til í frumvarpinu. Ég ætla frekar að einbeita mér að því sem ég hef verið að skoða. Mér sýnist þetta vera komið í það að nú eru þrjár mismunandi skerðingar. Við erum að tala um að tekjur frá Tryggingastofnun skerðist um 100%, með þeirri undanþágu að aldurstengdar örorkubætur skerðast um 50%, og svo eru skerðingar á aðrar tekjur 65%. Við erum að búa til aukið flækjustig í kerfi sem er þegar mjög flókið.

Í frumvarpinu kemur fram varðandi samráðið að málið hafi verið kynnt á fundi með Öryrkjabandalagi Íslands. Ég velti fyrir mér: Þegar farið var út í að útfæra hvernig ætti að nota þennan pening og hvernig þetta myndi líta út, þessi minnkun á krónu á móti krónu skerðingu, var haft eitthvert samráð við Öryrkjabandalagið, var unnið með þeim og öðrum hagsmunaaðilum að þessari breytingu? Eða var þetta unnið algerlega inni í ráðuneytinu með engri aðkomu?