149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:46]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi flækjustig kerfisins og skerðingar almennt, þá er það einmitt ástæðan fyrir því að við munum á næsta þingi leggja til breytt almannatryggingakerfi. Það er þörf á einföldun þar líkt og gert var gagnvart eldri borgurum á sínum tíma. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að einfalda kerfið og það var einmitt verkefni þessa starfshóps að leita leiða til að byggja upp nýtt framfærslukerfi til einföldunar.

Varðandi vinnslu þessa máls þá gefur það augaleið að það er það knappur tími síðan starfshópurinn skilaði af sér, og við vildum koma þessu máli inn í þingið á vorþingi, að það náði ekki að fara inn í samráðsgátt og annað slíkt. En það var kynnt á fundi með Öryrkjabandalaginu. Í raun má segja að efnislega, varðandi skerðingarnar og tvo meginþættina í þessu frumvarpi, hafi þeir líka verið til umfjöllunar hjá þessum umrædda starfshópi. Kom m.a. til tals þar inni að starfshópurinn legði þessar breytingar til. En frá því var horfið. Ég þykist vita og hygg að um það hafi verið rætt í þingsal, m.a. af hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, sem (Forseti hringir.) benti á að þær tillögur sem hér eru lagðar fram hefðu verið til umfjöllunar í samstarfshópnum. En vegna knapps tíma hefur þetta mál ekki farið í eðlilegan samráðsferil inn í samráðsgátt og öðru slíku en ég vona að samt verði hægt að afgreiða það.