149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það liggi algerlega skýrt fyrir að það hefur verið kappsmál hagsmunasamtaka eins og Öryrkjabandalagsins að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Ég held að það sé ekkert nýtt þar í þessu frumvarpi. Við erum einfaldlega að leggja til nákvæmlega það sem hefur verið í hinni pólitísku umræðu hér í þingsal alveg síðan ég varð ráðherra þar sem í hverri viku er spurt að því hvenær eigi að stíga skref í átt að afnámi krónu á móti krónu skerðingar. Það er verið að stíga það hér.

Það gefur líka augaleið, og ég rakti það í mínu máli, að eftir að samráðshópurinn skilaði sinni niðurstöðu og við fórum að geta fullbúið þetta frumvarp — það voru umræður í samráðshópnum um að hann vildi leggja þetta til en síðan varð niðurstaðan sú að ráðherra myndi gera það — taldi ég mjög mikilvægt að reyna að koma þessu máli inn í þingið nú á vorþingi. Það gefur augaleið að það hefur ekki farið í gegnum eðlilegan samráðsferil eins og ég rakti í mínu máli. Það gefur líka augaleið að ef velferðarnefnd ætlar að klára málið (Forseti hringir.) mun hún þurfa að vinna hratt og vel hvað það snertir. En ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það, og rakti það í framsögu minni, að (Forseti hringir.) við þurfum að einfalda kerfið líkt og gert var hjá eldri borgurum. Það munum við leggja til í nýju frumvarpi sem ætlunin er að leggja fram á næsta þingi.