félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Herra forseti. Það er ástæða til þess að fagna öllum skrefum sem stigin eru við afnám krónu á móti krónu skerðingarinnar. Ég óska því hæstv. ráðherra til hamingju með að vera að stíga ákveðið skref. En ég verð að viðurkenna að mér finnst töluverð fljótaskrift á þessu máli. Mér finnst það bera þess merki að hér sé verið að hlaupa upp til handa og fóta til að ráðstafa fjármunum innan ársins sem ráðherra hafði ekki klárað að útfæra og var reyndar skertur nokkuð á árinu í heild. Það hefur komið fram að kostnaðarmatið frá gildistöku sé 2,9 milljarðar á ári þannig að ég ætla að það slagi hátt í 6 milljarða á ári hverju í fullu almanaksári miðað við að gert er ráð fyrir að þetta taki gildi 1. júní, sýnist mér.
Örorkulífeyriskerfið er ekki einfalt fyrir, reyndar eitt það flóknasta sem við höfum og talsvert flóknara t.d. en ellilífeyriskerfið sem við höfum komið á hér. Hér eru fjölmargir bótaflokkar, fjölmargar skerðingarfjárhæðir og hér er enn verið að bæta í fleiri skerðingarprósentum og gera lífeyrisþegum enn erfiðara um vik að skilja hvers megi vænta. Ég velti einfaldlega fyrir mér hvort ekki hefði verið heppilegra að vinna málið betur í sumar og ljúka þá fjármögnun varanlegra breytinga inn í næsta almanaksár á örorkulífeyriskerfinu í staðinn fyrir að koma með enn eina stagbótina á núverandi kerfi.