félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég hef alla tíð gengið út frá því að lykilþáttur í þeim aðgerðum sem ættu að taka við væri algjör uppstokkun á örorkulífeyriskerfinu sjálfu, bótafjárhæðum og skerðingarprósentum, til einföldunar í takt við það sem var unnið í ellilífeyriskerfinu á sínum tíma. Því miður sátu örorkulífeyrisþegar eftir þá. Þess vegna óttast ég aðeins, sér í lagi í ljósi þess að við erum að vinna með nýja fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og væntanlega töluverða skerðingu á fjármálaáætlun vegna hennar, að ríkisstjórnin muni mögulega skýla sér á bak við það að hér sé einfaldlega nóg að gert og ekki þurfi frekari breytinga við. Við vitum alveg að sú uppstokkun á örorkulífeyriskerfinu sem er nauðsynleg mun í upphafi kosta umtalsverð útgjöld þó að við væntum þess líka að hún muni spara með aukinni atvinnuþátttöku öryrkja til lengri tíma litið.
Ég vona að það sé ástæðulaus ótti hjá mér, herra forseti, og ég vona að hæstv. ráðherra geti sannfært mig um það.