149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:01]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og segi: Nei, það er alveg ástæða til þess. Þetta eru góðar vangaveltur hjá hv. þingmanni vegna þess að við stöndum frammi fyrir áskorunum í ríkisfjármálunum sem voru hér til umræðu í gærkvöldi og fram á nótt. Það liggur fyrir í þessu að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að koma fram með frumvarp á næsta löggjafarþingi á grunni þessa starfshóps. Það er mikilvægt, og ég tek undir með hv. þingmanni, að ná fram breytingum á kerfinu. Við erum að missa of margt ungt fólk út af vinnumarkaði sem mun hafa tilheyrandi kostnað í för með sér í framtíðinni, og ekki bara kostnað heldur líka skert lífsgæði fyrir þessa einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Það er mikilvægt að bregðast við en það er líka mikilvægt að átta sig á því að það mun kosta peninga að innleiða nýtt kerfi. Þar skiptir máli hvernig okkur tekst að gera breytingar, t.d. á vinnumarkaðnum, hvernig hið opinbera kemur inn í það. Mun það hafa í för með sér beinan kostnað eða getum við gert það innan ramma stofnana og ráðuneyta? (Forseti hringir.) Þessi vinna er öll komin á fullt og verður að koma samhliða gildistöku á frumvarp um innleiðingu á nýju kerfi.