149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:02]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og breytingu á lögum um almannatryggingar sem lýtur að framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra mælti fyrir fyrir augnabliki. Það kann vel að vera að sá sem hér stendur hafi ekki fullan og réttan skilning á öllum atriðum þessara breytinga á þessu stigi, enda á málið eftir að fá umfjöllun í velferðarnefnd. Sá skilningur dýpkar væntanlega og vex á því sem um er að ræða, en það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Lagatexti og framsetning hans er ekki alltaf mjög aðgengileg og auðvelt að misstíga sig og misskilja og skilja ekki að fullu og meira að segja hefur löggjafinn sjálfur misstigið sig í því efni.

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi eru stigin örfá lítil hænuskref til réttarbóta en þau eru bæði of fá og allt of stutt. Reisnin er ekki meira en það og birtingarmyndin sem við blasir er sú að nú eru atvinnuleysisbætur jafnvel orðnar talsvert hærri en örorkubætur, atvinnuleysisbætur sem almennt eru hugsaðar til að brúa tímabundið bil í atvinnuþátttöku meðan örorkubætur eru hugsaðar sem framfærsla, jafnvel eina framfærslan, til lengri tíma, og það er raun margra. Hlutskipti fjölmargra öryrkja er að skrimta á lágum örorkubótum, ekki bara örfá misseri heldur áratugum saman, jafnvel frá ungum aldri eða miðjum aldri fram að töku ellilífeyris við 67 ára mörkin.

Með þessu frumvarpi verður engin breyting þarna á. Framfærsluviðmiðin hreyfast ekkert til, eru alveg óbreytt og eru til vansa fyrir allsnægtaþjóðfélagið sem við teljum okkur búa í, Ísland. Örorkulífeyrir fatlaðs fólk er ekki hækkaður um eina krónu. Þeir sem hafa eingöngu örorkubætur til framfærslu, sem eru reyndar fleiri en þeir sem verða fyrir barðinu á krónu á móti krónu skerðingu, hafa eftir um 212.000 kr. þegar þeir hafa lokið við að greiða sína skatta því að vissulega greiða þeir skatta. Þetta er það sem þeir hafa til að lifa af og sumir ná því jafnvel ekki.

Vissulega er það jákvætt, virðulegur forseti, að lækka skerðingarhlutfall vegna annarra tekna örorkulífeyrisþega úr 100%. Tekjuskerðingin verður þó enn og áfram allt of mikil, þ.e. 65% af tekjum fyrir skatt, tekjum sem örorkulífeyrisþegar greiða einnig af tekjuskatt eða fjármagnstekjuskatt.

Enn er þess beðið að breytingar verði gerðar á framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu. Hæstv. ráðherra boðar þó breytingar og mæli hann manna heilastur, þ.e. að afnumin verði þessi sérstaka framfærsluuppbót líkt og gert var í tryggingaumhverfi ellilífeyrisþega með nokkrum lagabreytingum árið 2016 þegar þrír bótaflokkar, ellilífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót vegna framfærslu, voru sameinaðir í einn nýjan ellilífeyri.

Þess hefur lengi verið vænst að róið yrði í þessa átt gagnvart öryrkjum en þeir hafa mátt liggja óbættir hjá garði og gera raunar enn. Það er ekki ásættanlegt í samfélagi sem vill kenna sig við velferð. Ég held að við séum flest sammála um að þetta eitt og sér sé áhyggjuefni. Þetta hefur áhrif á félagslegan styrk og félagslega stöðu fólks. Það hefur áhrif á heilsufar fólks að búa við efnahagslegan skort. Öryrkjar eru órétti beittir. Hér er ekkert jafnræði. Hér er engin sanngirni. Það örlar þó á réttlátari hugsun í þessu frumvarpi en skammt er gengið eins og fyrr er drepið á.

Virðulegur forseti. Í 1. gr. þessa frumvarps er getið um það að eingreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skuli ekki teljast til tekna lífeyrisþega og ekki skerða með neinum hætti aðrar reglubundnar og réttmætar greiðslur til viðkomandi ef ég skil þetta rétt, það sé með þessu frumvarpi lögfest. Hins vegar eru afleitir pyttir í lögunum sem enn þarf að girða fyrir og þeir hitta öryrkja afar illa fyrir. Dæmin eru mörg og lýsingarnar á viðbrögðum kerfisins ekki manneskjulegar. Það hef ég heyrt af vörum öryrkja sjálfur. Eitt dæmi leyfi ég mér að nefna hér sem varðar öryrkja sem lenti í því — já, ég orða það þannig — hann lenti í því, þessi öryrki, að honum tæmdist arfur ásamt nokkrum systkinum sínum. Ekki kom há upphæð í hlut hvers og eins, 1,4 millj. kr. Þau systkinin greiddu öll fjármagnstekjuskatt að upphæð um 320.000 kr. hvert um sig og þá höfðu systkinin goldið keisaranum sitt en öryrkinn var aldeilis ekki laus allra mála því að Tryggingastofnun skerti greiðslur til hans um 640.000 kr. og þá tóku við mánaðarlegar greiðslur upp á 95.000 kr. til að ljúka þeirri kvöð. Við munum hverjir tekjurnar voru, þær voru rúmlega 200.000 kr. á mánuði. Eru þetta vasarnir sem við getum verið þekkt fyrir að seilast í? Nei, ég held ekki.

Það er reyndar í frumvarpinu, virðulegur forseti, að finna breytingu á endurreikningi, að heimilt sé eingöngu að telja til tekna bótaþega atvinnutekjur í þeim mánuði sem þeirra er aflað og að ákvæði um að gæta skuli sérstaklega hagsmuna skjólstæðinga í því efni. Það er ágætt, þ.e. að velja þá leið sem honum er hagkvæmust. Þetta er til bóta en einungis lítið spor á löngum vegi. Þetta á bara við um atvinnutekjur, ekki eingreiðslur vegna t.d. úttektar á séreignarsparnaði, vegna lífeyrissjóðstekna eða, eins og ég nefndi áðan, þetta dæmi um að viðkomandi tæmist eingreiðsla, arfur eða eitthvað því um líkt. Þetta setur strik í reikning þeirra sem hafa mjög lítið á milli handanna og búa við þessar aðstæður.

Þetta er sérstakt athugunarefni ásamt mörgu öðru í þeirri viðleitni að rétta hlut þessa samfélagshóps sem við þurfum að vinna að af kappi.

Virðulegur forseti. Frumvarp þetta mun nú fá sína umfjöllun í velferðarnefnd og er mikilvægt að svigrúm gefist til vandaðrar yfirferðar og skoðunar. Fullur vilji er til þess af hálfu nefndarinnar. Þarna má greina örlítil framfaraskref en þau eru stutt og í þeim felst lítill hvati áfram til að afla sér viðurværis fyrir þann hóp sem hefur þó á annað borð möguleika til þess. Það er bara hluti öryrkja sem hefur möguleika til þess.

Fjallað er um efni þessa frumvarps sem fyrsta áfanga í lengra breytingar- og umbótaferli. Öryrkjar spyrja sem von er: Hver verða næstu skref, hvenær má sjá í þau og hvenær mun umbótadraumurinn rætast? Hvernig mun heildarmyndin líta út? Hæstv. ráðherra hefur gefið okkur örlitla innsýn í það og vonandi tekst að vinda bráðan bug að þessu þegar á hausti komanda.