félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Virðulegur forseti. Króna á móti krónu skerðing, eigum við að tala um hana? Hvenær var hún sett á? Hvers vegna króna á móti krónu skerðing? Jú, í kjölfarið á hruninu var talin ástæða til að seilast í vasa þeirra sem höllustum fæti stóðu í samfélaginu. Þeir áttu líka að taka þátt í því áfalli sem þjóðin varð fyrir. Það var í höndum vinstri flokkanna, velferðarstjórnarinnar, sem króna á móti krónu skerðingin var sett á með aðstoð allra hinna. Hér hefur hún verið í tíu ár.
Hæstv. velferðarráðherra hefur orðið tíðrætt um að þetta þurfi að einfalda, það þurfi að laga kerfið. Aldraðir losnuðu við sína íþyngjandi krónu á móti krónu skerðingu fyrir nokkru. Mig langaði reyndar að fara í andsvör við hæstv. velferðarráðherra áðan en einhverra hluta vegna skolaðist það til í kerfinu og ég komst ekki að. En ég spyr: Sætir það ekki furðu að aðeins þessi þjóðfélagshópur, öryrkjar, skuli sæta því ofbeldi að geta ekki með nokkru lifandi móti togað sig út úr þeirri manngerðu fátæktargildru sem honum er búin með því að fara út að vinna? Hlutfallið er lækkað þannig að sá sem hefur 100.000 kr. í laun á mánuði sem öryrki í hlutastarfi getur hugsanlega drýgt bæturnar sínar um þær krónur í stað þess að vera skertur í almannatryggingakerfinu um 50.000 kr., og þá verða það 35.000 kr., virðulegi forseti. Jú, lítið skref í rétta átt, en er þetta löglegt? Er lögmætt að taka út fyrir sviga einn þjóðfélagshóp, sem viðurkennt er að er fátækasti þjóðfélagshópurinn í landinu, og láta hann einan af öllum bera þessa skerðingu, ekki bara á jörðinni heldur sennilega í öllu sólkerfinu? Þótt við vitum ekki hvort líf er á öðrum plánetum vil ég leyfa mér að efast um að nokkurs staðar finnist svo hugmyndarík ríkisstjórn að hún myndi nokkurn tíma koma öðru eins kerfi á sína minnstu bræður og systur, með mismunun og brotum á jafnræði og öllu. Ég horfi á þetta allt saman og þegar verið er að búa til nýja löggjöf, þegar verið er að reyna að laga þetta til og fara í átt að því að segjast vera að gera hlutina pínulítið betri, er í raun verið að gera það ólögmæta ekki alveg jafn mikið ólögmætt, eða hvað? Eða er verið að reyna að draga pínulítið úr því þannig að það sé ekki alveg jafn sárt? Eftir stendur sá hópur öryrkja, sem er stærri, sem er með 212.000 kr. á mánuði útborgað af því að auðvitað, virðulegi forseti, er enn verið að skattleggja sárafátækt — auðvitað, en ekki hvað? Á meðan horfum við á forstjóra og fyrirmenn með allt að því tæpar 20 millj. kr. á mánuði í laun og okkur finnst það bara allt í lagi, er það ekki? Það er það sem hífir upp meðaltalið hjá OECD, milljóna- og milljarðamæringarnir á Íslandi sem geta sýnt góðu tölurnar, hvað við stöndum okkur rosalega vel í alþjóðlegum samanburði.
En finnst þúsundum öryrkja, með 212.000 kr. útborgað á mánuði, þeir standa rosalega vel? Ég leyfi mér að efast stórlega um það.
Það er eitt sem vakti athygli mína þegar ég var að skoða þetta frumvarp, þar sem stóð að gert væri ráð fyrir því að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, verði nú taldar til tekna sem voru greinilega ekki áður taldar til tekna, eða hvað? Maður spyr sig: Hvað er átt við með þessu? Er allt í einu farið að telja til tekna slysatryggingar samkvæmt þessum almannatryggingalögum sem ekki hafði verið gert áður? Er það tilfellið?
Nú er nýfallinn dómur, kom á föstudaginn var í Landsrétti, þar sem við sjáum svart á hvítu hvað raunverulega er verið að skerða, t.d. fólk með réttindi úr lífeyrissjóðum. 2,5 milljarðar kr. á mánuði. Ég leyfi mér að kasta því fram hér og nú, af því að ég ætla ekki að tefja umræðuna, og segja: Ég stend hér til að berjast gegn fátækt. Ég stend hér fyrir þjóðfélagshópinn sem ég er búin að tilheyra alla mína ævi. Það að þurfa að horfa upp á þessa lítilsvirðingu gagnvart þessum þjóðfélagshópi sýknt og heilagt á hinu háa Alþingi er alveg ótrúlegt. Ég held að ég hafi ekki farið að grenja síðan ég fór að grenja í beinni útsendingu fyrir síðasta kjördag. Eitt er víst, að á þetta verður látið reyna fyrir dómi. Það getur ekki verið mögulegt að þetta sé löglegt. Það er ekki hægt. Króna á móti krónu, fátæktargildra, mismunun, brot á jafnræði — það getur ekki verið löglegt, virðulegi forseti.