149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þó að ég sé hér forseti og blandi mér ógjarnan í pólitískar umræður sit ég ekki þegjandi undir rangfærslum og óhróðri af því tagi sem hv. þm. Inga Sæland hafði um ríkisstjórn okkar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er rangt að sú ríkisstjórn hafi tekið upp krónu á móti krónu tengingu. Það sem er rétt er að Jóhanna Sigurðardóttir kom sem félagsmálaráðherra á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu. Það þótti þá stórkostleg réttarbót og þar var verið að bæta kjör þess hóps sem lakast var settur og fáir virðast muna eftir í dag. Ég er orðinn ansi hugsi yfir því hvert samtök öryrkja og samtök aldraðra eru komin þegar nánast enginn talar orðið um þann hóp félagsmannanna sem er lakast settur og ekkert hefur annað en strípaðar greiðslurnar.

Svo líður tíminn og allt í einu er það orðið stórkostlegt ranglæti að þessi sérstaka uppbót ofan á aðrar almennar greiðslur kerfisins — já, var vissulega tekjutengd og vék á móti öðrum tekjum af því að það var verið að reyna að nota takmarkaða fjármuni til að aðstoða þann hluta hópsins sem var lakast settur. Menn þurfa aðeins að kunna hlutina áður en þeir taka upp í sig stór orð. Meðan ég er á þingi og hef málfrelsi sit ég ekki þegjandi undir svona löguðu. Jóhanna Sigurðardóttir, einn merkasti félagsmálaráðherra þessarar þjóðar, á annað og betra skilið frá kynsystrum sínum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)