149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það kom skýrt fram í mínu máli að þegar þessi uppbót er sett inn í kerfið, hrein viðbót við almennar greiðslur kerfisins, er hún tekjutengd, hún er viðbótarfjármunir inn í kerfið til að aðstoða lakasta hluta hópsins. Hið sama gerðist reyndar með ýmsar greiðslur inn í almannatryggingakerfið til aldraðra. Þannig lögðu slíkar tekjutengdar greiðslur af stað, þær voru uppbót við of lágar almennar greiðslur kerfisins til að reyna að beina takmörkuðum fjármunum til þeirra sem eru verst settir.

Hver er að tala máli þeirra í dag þegar öll umræðan er orðin um það að menn eigi bara að hafa allar greiðslur óskertar úr almannatryggingakerfinu, jafnvel án tillits til þess hversu háar tekjur þeir hafa? Eru menn komnir þangað í alvöru? Og hvar er málflutningurinn fyrir því að bæta stöðu þeirra allra lakast settu?

Ég styð þetta frumvarp að sjálfsögðu. Það er gott að draga úr þessari miklu tekjutengingu og hafa hvata í kerfinu. Ég spyr mig samt: Ef við erum að ráðstafa 2,9 milljörðum eða 4, hefði kannski eitthvað af því átti að fara til allra lakast setta hópsins? Því að þetta er ekki hann. Þetta er hópurinn sem hefur aðrar tekjur og heldur núna meira eftir úr almannatryggingakerfinu eða lögum um félagslega aðstoð með þessum breytingum. Já, það er gott og við viljum hafa kerfið hvetjandi. En hvar eru núna málsvarar þeirra allra lakast settu?