149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:27]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir andsvarið. Ég velti því gjarnan fyrir mér hversu mikið fjármagn við höfum sett í alls konar stýrihópa og alls konar nefndir sem eiga að setja ramma utan um það hvernig eigi að skáka öryrkjum inn í það kerfi sem við erum að búa þeim, það rammgerða fátæktargildrukerfi sem þeim er búið. Ég velti fyrir mér hversu miklir fjármunir liggi þar að baki um leið og ég velti fyrir mér hvað sé því til fyrirstöðu að öryrkinn geti sjálfur fengið að meta það hversu bær hann er í vinnu. Hvað er því til fyrirstöðu að búa til hvatningarkerfi til að efla þá til dáða og bjóða þeim að koma út á vinnumarkaðinn? Hvað er því til fyrirstöðu að afnema skerðingar þannig að greiðslan verði í formi skatta inn í okkar sameiginlegu sjóði? Hvað er því til fyrirstöðu, virðulegur forseti, að líta til landanna í kringum okkur sem við svo gjarnan berum okkur saman við, eins og t.d. Svíþjóðar sem reyndi þetta einmitt fyrir allnokkrum árum? Og viti menn, yfir 30% af öllum þeim sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði á þeim forsendum að vera óskertir um ákveðinn tíma skiluðu sér ekki aftur inn í bótakerfið. Hversu dapurlegt er það, virðulegi forseti, að heyra endalaust um það að öryrkjum fjölgi of mikið, um nýgengi örorku endalaust? Hver er ástæðan? Hver er rót vandans? Hvers vegna ekki að reyna að skoða hana og finna hana út? Er það eitthvað í samfélagsgerðinni okkar? Hvers vegna líður unga fólkinu okkar svona illa? Hver er aðalmarkhópurinn, hvar er nýgengi í örorku á Íslandi í dag?

Það eru ýmis önnur úrræði sem ég sé, virðulegi forseti, önnur en að sitja sem einhver bírókrati á bak við skrifborð og skáka mínum minnstu bræðrum og systrum og setja þau í einhvern skerðingarramma eða reyna að miðla þessum og hinum einni krónu á meðan annar fær ekki neitt.