149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:29]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ræða hv. þingmanns var eiginlega besti rökstuðningurinn fyrir niðurstöðum starfshópsins um að við þurfum að gera breytingar á almannatryggingakerfinu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, við þurfum að ná fram breytingum til að draga úr því að við missum ungt fólk inn á örorku, svo að samfélagið okkar hvetji það fólk í aðgerðum til að sækja út á vinnumarkaðinn. Þess vegna leggjum við til breytt kerfi almannatrygginga. Miðað við nýgengi örorku sjáum við að spár gera ráð fyrir því að fjárhæðin sem fer í örorkulífeyri fari úr 41 milljarði árið 2016 í 90 milljarða 2030 ef ekkert væri að gert vegna þess að það er að fjölga þarna inni. Við viljum gera breytingar á því en við viljum á sama tíma tryggja þeim lífsviðurværi sem ekki geta sótt vinnumarkað, sem er ekki mögulegt að búa til sérhæfð hlutastörf fyrir o.s.frv.

Það er það sem ég var að segja áðan. Hvernig getum við náð utan um þann hóp en um leið verið með hvata? Það held ég að hafi verið hugsunin á sínum tíma með framfærsluuppbótinni. Orðaskipti hv. þingmanns við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sneru að rökstuðningnum fyrir þeirri framfærsluuppbót sem var ætlað að ná utan um þann hóp sem ekkert hafði annað og gat ekki sótt sér tekjur. Það að draga úr skerðingum hafði engin áhrif á þann hóp en á sama tíma þurfum við að vera með hvata til að fólk geti séð hag sínum best borgið við að fara út á vinnumarkaðinn. Þó að þetta sé samræmanlegt að einhverju leyti er þetta líka svolítið hvor sinn hópurinn og þess vegna þurfum við að gera breytingar á almannatryggingakerfinu til framtíðar og stoðkerfinu okkar öllu, af því að við viljum ná utan um báða hópana. Ég þykist vita að við hv. þingmaður séum ekki svo mikið ósammála um þetta tvennt og mig langar að spyrja hv. þingmann að því.