149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir andsvarið, hæstv. félagsmálaráðherra. Tryggja þeim sem ekkert hafa betri afkomu, segir hæstv. ráðherra. Hvernig? Tryggja þeim það hvernig? Fátæka fólkið getur ekki beðið eftir réttlæti, en það bíður enn. Það fær ekki eina einustu krónu í leiðréttingu. Það fólk fylgir ekki einu sinni lífskjarasamningum eða neinu, engu. Þau eiga engan til að semja fyrir sig. Þau fá ekki eina einustu krónu. Þegar við erum að tala um að 48 milljarðar núna verði sennilega 90 milljarðar sem við þurfum að greiða í þessa örorkubyrði, eins og við köllumst gjarnan, öryrkjarnir, árið 2030. Hvers vegna þá ekki að stíga út fyrir rammann, hæstv. ráðherra, og prufa eitthvað nýtt?

Hefur þetta kerfi, þetta manngerða skerðingarmannvonskukerfi, ekki sýnt og sannað hvað það gerir fyrir þennan þjóðfélagshóp? Er ekki kominn tími til aðgerða, gjörbreyttrar uppstokkunar í kerfinu? (Gripið fram í: Það er svo annað mál.)

Ég segi: Það er ekki það sem verið er að gera. Það er engin gjörbylting eða gjörbreyting á uppstokkun í kerfinu. 2,9 milljarðar eru nákvæmlega settir í það að lækka krónu á móti krónu skerðinguna, 65 aurar á móti hverri krónu, sem sagt tveir þriðju á móti krónu, eins og þar stendur.

Þannig að ég segi: Við getum verið sammála um það, hæstv. ráðherra, að það þarf sannarlega að taka til hendinni hér. En þetta er ekki það sem ég hefði viljað sjá, því miður, og veldur mér gríðarlega miklum vonbrigðum. En eins og ég segi, þetta eru hlutir sem mér þykja ósanngjarnir og óréttlátur og ég trúi því ekki að þetta eigi að vera svona. Þess vegna verður á það látið reyna allan hringinn. Við gefumst aldrei upp á því að leita réttlætis.