félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna, frá félags- og barnamálaráðherra. Ég vil þakka ráðherranum fyrir þetta frumvarp sem mér finnst vera mjög gott skref í þá átt sem við erum að stefna. Ég þarf ekki að fara að endurtaka allt það sem hefur komið fram í umræðunni, það sem hér hefur verið sagt. Það er ósvinna að fara að gera það og alls ekki ætla ég að fara að draga gamla sótrafta á flot og fara í einhvern umkenningaleik. Ég hef aldrei haft tíma til þess í þessum stól. Ég ætla að reyna að halda mig við þá hugsun sem var í þeirri nefnd sem ég og fleiri, hv. þingmenn Steinunn Þóra Árnadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson, voru í ásamt fleira góðu fólki sem fjallaði um starfsgetumat. Það kom einmitt fram í ræðum áðan að horfa þarf til nýrra leiða til þess að bæta kjörin og bæta atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsorku og starfsgetu. Ég held að það sé leiðin sem við þurfum að fara. Í nefndinni fjölluðum við um nýtt starfsgetumat sem fékk reyndar ekki mjög góðar viðtökur frá Öryrkjabandalaginu og fleirum þó að margt í því væri auðvitað til bóta að þeirra mati, sérstaklega hugmynd um að taka upp sveigjanleg störf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Það er gríðarlega mikilvægt verkefni sem fylgir þessum lögum og er byggt á þeirri trú að vinnumarkaðurinn taki við og fjölgi hlutastörfum. Það er gríðarlega mikilvægt að við höfum þá trú að vinnumarkaðurinn sé tilbúinn að taka á móti fólki með skerta starfsgetu. Við þurfum að sýna fram á það. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að ganga á undan og ráða fólk í hlutastörf.
Mig langar að gera að umtalsefni skýrslu Analytica þar sem fjallað var um atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu og, með leyfi hæstv. forseta, fá að vitna í skýrsluna sem ég held að eigi erindi í þá umræðu sem hér er. Við getum verið svolítið sammála um að það sé mikilvægt í þeirri vinnu sem við vorum að vinna í þessum starfshópi. Það er alveg ljóst að það hefur ekki bara efnahagsleg áhrif á atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu heldur líka áhrif á líf þess sjálft. Það hefur öðlast betra líf með því að komast út á vinnumarkaðinn. Það vitum við öll sem vinnum í kringum slíkt fólk.
Mig langar að vitna í skýrslu Analytica þar sem helstu forsendur og útreikningar sem sett eru fram eru í greiðsluflæðissamantekt sem sýnir ávinning eða kostnað allra hópa sem og heildarinnar. Niðurstaðan er sú að bein efnahagsleg áhrif af aukinni atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu eru talsverð og komu m.a. fram gagnvart ríkissjóði og sveitarfélögum en mest gagnvart öryrkjunum sjálfum. Hvað ríkissjóð varðar má nefna að viðbótarútgjöld sem nema 4 milljörðum á ársgrundvelli á árunum 2019–2032 samsvara núvirtum viðbótarkostnaði að fjárhæð 42,3 milljörðum. Á móti geta komið skatttekjur sem að núvirði nema 15,2 milljörðum í grunnsviðsmynd og núvirtur ávinningur sveitarfélaga upp á 9 milljarða. Núvirtur ávinningur öryrkjanna er upp á tæpa 50 milljarða. Þarna erum við bara að tala um krónur og aura. Við erum ekki að tala um heilsuna sem því fylgir að komast út á vinnumarkaðinn og taka þátt þar.
Það kom líka á óvart í störfum nefndarinnar að því til viðbótar gætu bein efnahagsleg áhrif með fjölgun á vinnumarkaði og aukinni afkastagetu af þeim sökum og til aukinnar landsframleiðslu numið allt að 0,3–1% af landsframleiðslu uppsafnað á átta til tíu ára tímabili eftir því hvaða sviðsmyndir eru settar fram.
Það er fleira sem Analytica tók fram og benti á. Það er ekki aðeins að fólk með skerta starfsgetu geti farið út á vinnumarkaðinn og unnið þau störf þann tíma sem mat þeirra byggir á heldur mun lyfjakostnaður þessa hóps lækka alveg gríðarlega. Talið er samkvæmt skýrslunni að á átta ára tímabili myndi lyfjakostnaður hópsins lækka um 33%. Þar erum við að tala um milljarðaverðmæti, milljarðasparnað. Það hlýtur að segja sig sjálft að ef sú sýn okkar nær fram og fólkið mun öðlast aukna starfsgetu og verða þar með í rauninni mikil tekjulind fyrir ríkissjóð hlýtur það að fela í sér bættan hag þessa hóps. Að því er unnið og það sem kom fram í starfi nefndarinnar var að það frumvarp sem hér er flutt var fyrst kynnt í nefndinni í desember sl. og er nú loksins komið hingað fram. Mér finnst það ekki hafa komið nógu skýrt fram í umræðunni að það er afturvirkt frá 1. janúar sl. þannig að sú meðferð að hefja afnám krónu á móti krónu er líka stórt skref þó að við hefðum viljað hafa það stærra. Þetta er þó skref í þá átt sem óskað hefur verið eftir. Ég er mjög ánægður fyrir hönd okkar í nefndinni sem börðumst fyrir því að við gætum hafið þessa niðurtalningu og ekki síst að sá sveigjanlegi möguleiki atvinnutekna sem hér er boðaður getur komið sér gríðarlega vel fyrir öryrkja sem geta á tímabilum kannski farið einn aukatúr á sjó, eins og sá sem hér stendur hefur stundum gert og náð sér í aukapening, það telst þá bara innan mánaðarins en ekki innan ársins. Það er mikil framför og líka fyrir þá sem veikjast snögglega eða slasast og eru gripnir frá störfum sínum sem verða þá ekki metnir það tekjuháir út árið að þeir fái engar bætur frá og með þeim degi sem þeim er kippt úr starfi.
Ég verð bara að segja eins og er að mér finnst við vera að stíga góð skref í þá átt að bæta hag þessa hóps. Ég er þakklátur ráðherranum fyrir að koma fram með þetta frumvarp núna. Ég treysti því að með öllum ráðum verði reynt að flýta því í gegnum velferðarnefnd svo sem nokkur kostur er. Þetta mál liggur hreint fyrir. Þeir hópar sem hafa einhverja aðkomu að þessu máli þekkja það mjög vel. Það þarf ekki langa kynningu, það þarf ekki langar umsagnir. Nefndin á að geta afgreitt þetta á mjög skömmum tíma. Svo að málið klárist alveg örugglega fyrir þinglok má velferðarnefnd undir engum kringumstæðum tefja það.