149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir prýðisræðu. Hann fór yfir víðan völl þar sem til umræðu er þetta mál um afnám krónu á móti krónu. Það skref sem kemur fram í þessu frumvarpi er góðra gjalda vert en það hefur hitnað í kolunum og það hefur verið spurt: Af hverju er ekki hæg að fara alla leið? Svarið er að sjálfsögðu of mikill kostnaður og annað slíkt, en mér fannst þingmaðurinn fara vel yfir það í ræðunni hvað þetta viðkvæma mál hefur verið nálgast á þann hátt að t.d. ríki og sveitarfélög koma meira til móts við fólks með skerta starfsgetu til að veita því vinnu. Ég þekki það bara í kring hjá mér að það hefur komið mjög vel út og hjálpað fólki til að finna sjálft sig, afla tekna og losna úr fjötrum þess að vera ekki, eins og stundum var sagt, til gagns samfélaginu. Fólk upplifir sig algjörlega upp á nýtt og líður miklu betur. Eins kom þingmaðurinn inn á lyfjakostnað og annað slíkt.

Mig langar að spyrja þingmanninn, af því að ég get alveg tekið undir að þetta er skref í rétta átt: Getur þingmaðurinn séð fyrir sér hvað við munum þurfa langan tíma í framhaldinu til að ná alveg út þessari skerðingu sem þó er komin á þennan veg? Hefur þingmaðurinn það gott spádómsnef að hann geti séð fram í tímann með það?