149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram hjá fyrirspyrjanda að það er auðvitað mjög mikilvægt að skapa þau störf sem þessi hópur fólks getur sinnt. Þar verður að höfða til ríkisstofnana og sveitarfélaganna ekki síst en auðvitað til atvinnulífsins alls. Þar er fjöldi starfanna og við vitum að þetta fólk getur sinnt ýmiss konar þjónustustörfum, tekið að sér alls konar störf. Það er skemmtilegt á vinnustað og er uppbyggilegt fyrir okkur öll að skapa því þá umgjörð sem nauðsynleg er. Ég þekki það sjálfur að vera hluti af litlum vinnustað þar sem tíu manns vinna í endurvinnslu og þau velta 115 millj. kr. á ári. Þetta fólk gerir gríðarlegt gagn um allt samfélagið.

Varðandi þann hóp u.þ.b. 6.500 öryrkja sem býr við þessa skerðingu, krónu á móti krónu — hvenær ætlum við að ljúka því að afnema hana? Ég held að mikilvægt sé að það sé gert sem fyrst. Það má alveg segja að við hefðum átt að vera búin að því en loforðið er núna: Sem fyrst. Ég get ekki tímasett það en mér finnst mjög mikilvægt að þegar starfsgetumatið verður lagt fram munum við í leiðinni ljúka því að afnema þennan ótrúlega óréttláta skatt.