149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:49]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir andsvarið. Ég tek undir það sem hefur komið fram, það er auðvitað alltaf einhver hópur sem mun ekki geta farið út á vinnumarkað. Þess vegna er gert ráð fyrir því í tillögum starfshópsins að það verði sérstakur örorkulífeyrir greiddur þegar niðurstaða grunnmats eða samþætts sérfræðimats er að viðkomandi sé ófær um að taka þátt á vinnumarkaði eða starfsgetan mjög takmörkuð. Það er viðurkennt í þessu nýja frumvarpi okkar.

Hvenær ætlum við að ljúka afnámi krónu á móti krónu skerðingunni? Það má segja að með þessu sé því lokið. Nú er ekki lengur króna á móti krónu. (Gripið fram í: Nei.) Við höfum tekið það skref og ég held að við eigum að fagna því. Þó að maður hafi einhvern tímann tekið þátt í einhverjum umkenningaleik hef ég ekki tíma til þess í þinginu að draga gamla sótrafta á flot. Menn þurfa að tala um svo mikið annað í þessu púlti þannig að ég ætla að reyna að tefja þetta sem minnst.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, það er mikilvægt að fara í þessar breytingar og nýtt umhverfi fyrir þetta fólk á gætilegan og mjúkan hátt. Það mun taka mörg ár að breyta þessu kerfi. Þetta er það viðamikil breyting að hún mun taka mjög mörg ár að mínu mati. Hún verður til góðs. Eins og hefur komið fram í umræðunum þarf að horfa í nýjar áttir til að leysa þau mál. Það þarf að horfa í nýjar áttir til að auka tekjur þessa fólks. Það er verið að gera það í þeim hugmyndum sem hér eru lagðar fram. Það er verið að taka fyrstu skrefin í því frumvarpi sem hér er lagt fram og ég held að við getum þó alla vega sagt að við séum á réttri leið. Sú leið er bein fram undan og vonandi verður hún stutt.