149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er móðgun við málið og málaflokkinn að það skuli koma fram akkúrat núna. Það er ekki Miðflokknum að kenna, svo það sé sagt, vegna þess að það er forseti þingsins sem hefur dagskrárvaldið.

Ég ætla að byrja á að óska hæstv. ráðherra til hamingju og ríkisstjórninni allri með að hafa loksins fundið þann hóp sem er líklegastur til að geta tekið á sig auknar byrðar núna þegar fjármálastefna ríkisstjórnarinnar er komin upp á sker. Mér þykir það vel valið hjá ríkisstjórninni og ráðherrunum að ráðast að þeim hópi sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þetta er stórmannlegt og þeir velja sér andstæðing við hæfi, verð ég að segja.

Komið hefur fram í máli hæstv. ráðherra að til að leiðrétta krónu á móti krónu skerðingu 100% kosti það 7,5 milljarða kr. Ég sá haft eftir ráðherranum, að ég held á vefmiðli í gær, hann leiðréttir mig ef það er vitlaust, að lengra verði ekki gengið að sinni vegna þess að ekki séu til peningar. 65 aurar á móti krónu eru sem sagt vegna þess að ekki eru til peningar. Ég benti reyndar á það í andsvari áðan að það eru til peningar. Það eru til peningar sem eru ekki innheimtir, skatttekjur sem eru ekki innheimtar. Það hefur verið rætt, m.a. kom það fram í fjárlagatillögum Miðflokksins í kringum síðustu jól, að það er bjargföst skoðun þeirra sem innheimta fé ríkissjóðs að með því að bæta í mannskap þar, bæði hjá ríkisskattstjóra og hjá skattrannsóknarstjóra, muni hver maður, ekki í það óendanlega en upp að vissu marki, borga sig tífalt í bættri innheimtu. Það er reyndar líka rétt að minna á það að mig minnir — þessi tala hefur hækkað í gegnum síðustu misseri en ætli sé ekki óhætt að segja að 1% innheimtubæting sé 7 milljarðar. Það er svona u.þ.b. það sem það kostar að leiðrétta þetta mál í eitt skipti fyrir öll.

Ég hef sagt að það gæti verið freistandi af því að þessir 65 aurar á móti krónu — menn eru að reyna að hafa þetta örugglega þannig að erfitt sé að segja þetta og erfitt að skilja, þannig að ég legg til að við tölum um þetta að það séu tveir þriðju á móti krónu. Hvers vegna í ósköpunum reyna menn núna að koma í veg fyrir að þessi hópur sem einna bágast stendur í þjóðfélaginu geti reynt að ná sér í einhverja aukagetu? Hvers vegna hafa menn ekki notað tímann sem gefist hefur? Það hefur nefnilega gefist tími. Hæstv. ráðherra benti réttilega á það áðan að sá sem hér stendur hefði stýrt nefnd fyrir nokkrum árum sem hefði ekki leyst þetta mál. Það er rétt, niðurstaðan í nefndinni var ekki samhljóða. Það voru engir þar þá sem voru búnir að stilla öryrkjum upp við vegg og segja við þá: Ef þið gangið ekki að þessu fáið þið ekki neitt. Það var enginn í því þá. Það er kannski breytingin sem er orðin núna af því að nú er ný nefnd nýbúin að skila af sér. Ég held reyndar að hún hafi skilað af sér í ágreiningi líka.

Kannski eru þetta verðlaunin sem öryrkjar fá núna fyrir að þiggja ekki starfsgetumatið án mótmæla, að þeir fái þau verðlaun að fá ekki nema 35% af því sem þeir ættu að fá. Það kann að vera. Það gæti alveg verið og væri ríkisstjórninni líkt.

Málið er að þessi framkoma í garð öryrkja er náttúrlega skammarleg. Búið er að benda á það og bent var á það með aldraða líka, einmitt í fjárlagatillögum Miðflokksins á síðasta ári, að með því að segja einfaldlega að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur værum við að innleiða atriði sem myndi þegar allt kæmi til alls nánast ekki kosta ríkissjóð neitt. Það er eins með þetta hérna. Hér er verið að rétta öryrkjum ölmusu upp á 35% sem er náttúrlega fullsköttuð, að sjálfsögðu, þannig að þriðjungur af því kemur til baka aftur. Höfðingsskapur ríkisstjórnarinnar blasir við á alla lund og verður lengi í minnum hafður.

Ég er ekki viss um þegar öllu verður til skila haldið að ég treysti mér til að styðja þetta mál. Mér finnst það einfaldlega of vont til þess og ég get ekki ímyndað mér að það geti í sjálfu sér breytt aðstæðum nokkurs sem fær þessa ölmusu. Það er stundum kallað, með leyfi forseta, að skammta fólki skít úr hnefa. Það er akkúrat það sem verið er að gera. Það er verið að skammta öryrkjum skít úr hnefa. Ríkisstjórnin gerir það og er mjög glöð með sig yfir því. Ég verð að spilla þeirri gleði vegna þess að þetta er ekki réttlátt. Það er óþarfi að gera þetta á þennan hátt. Það hefði verið mjög í lófa lagið að uppfylla það sem stendur í öðrum kafla í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Þykir nauðsynlegt að bregðast við því“ — þ.e. krónu á móti krónu — „með því að lækka það hlutfall tekna lífeyrisþega sem hefur áhrif á útreikning uppbótarinnar.“

Þetta er svo lélegt — nauðsynlegt að bregðast við því að nokkru leyti í staðinn fyrir að bregðast einfaldlega við þessu. Þetta er með ólíkindum og þetta snertir væntanlega allflesta í öryrkjahópnum sem núna telur einhvers staðar á milli 16.000 og 18.000 manns, ef ég man rétt. Mönnum hefði verið í lófa lagið að leiðrétta hlut þess hóps verulega með því að sýna smákjark og smámannúð. En þetta er í sjálfu sér bara salt í sárið vegna þess að auðvitað byrjuðu menn á því að taka 4 milljarða sem var búið að ánafna í þetta verkefni og þeir skornir niður í 2,9 milljarða við fjárlagaafgreiðsluna. Þar fundu menn aftur þessi sömu breiðu bök og það á endalaust að bæta núna í bakpoka þeirra með því að koma fram með þetta mál með þessum hætti.

Herra forseti. Satt að segja skil ég ekki þetta sjónarmið. Það er löngu vitað, og það var líka vitað þegar nefndin var starfandi sem sá sem hér stendur stýrði að hluta og það eru líklega fjögur ár síðan eða svo, að staða þessa hóps væri viðkvæm og erfið og að menn gætu ekki beðið eftir því að fá þessa leiðréttingu. Þá stóð meira að segja upp hv. alþingismaður í salnum og sagði: Það er ekki þolandi að þeir sem minnst hafa, fátækasta fólkið á Íslandi, skuli enn um sinn þurfa að bíða eftir réttlæti. Ég gæti ekki verið meira sammála hv. þingmanni og nú hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, sem sagði þetta í umræðum, líklega árið 2017. Í sjálfu sér hefur staða hópsins sem við erum að tala um núna ekki breyst í þá veru að hópurinn sé betur í stakk búinn til að bíða eftir réttlæti enn um sinn nema síður sé, vegna þess að staða þessa hóps hefur, ef eitthvað er, versnað. Það hefur einnig fjölgað í honum.

Menn tala um það, helst á fánadögum, að ekki eigi að festa fólk í fátæktargildru. Samt eru menn að stíga skref í þá átt, t.d. í þessu máli. Orðin sem menn segja á fánadögunum, hvort sem það er 17. júní, sjómannadagurinn eða eitthvað annað, eru lítils virði, því miður. Stórmannlegt er það ekki, síður en svo. Þess vegna hefði ég beint því til þeirra sem sitja í velferðarnefnd — nú skilst mér rétt einu sinni, og það eru yfirleitt illa gerðu og vondu málin sem koma hingað inn korter í þrjú og afgreiða á þau á núll einni, þau eiga ekki að fá neina umræðu, ekki neina umfjöllun í nefnd og helst ekki gestakomur. Ég vona að hv. velferðarnefnd taki málið mjög alvarlega og geri á því róttækar breytingar, t.d. með því að fella þessa 65 aura út þannig að króna á móti krónu verði úr sögunni.

Ég hvet hv. velferðarnefnd til að fá marga gesti til að fjalla um málið. Ég hvet hana til að kalla á forystu Öryrkjabandalagsins, eins og hún leggur sig, og tala við fulltrúa öryrkja og fá beint frá þeim lýsingu á ástandinu einu sinni enn. Ég held að ekki veiti af. Það gæti náttúrlega líka verið gott fyrir nefndina að kalla hæstv. ráðherra til fundar við nefndina, jafnvel á sama tíma og t.d. formann Öryrkjabandalagsins, og vita hvort menn fái þá ekki greinargóða lýsingu, líka ráðherra, á því hvernig þetta ástand er og hvernig staða þessa hóps fátækasta fólks á Íslandi er. Það gæti verið ágætt — þetta er til á ensku en ég vil ekki fara með það, herra forseti. Talað er um að menn vakni við klukku og menn myndu kannski vakna við það ef þeir hittu á fundi með fleirum forystu Öryrkjabandalagsins þannig að þeir gætu þá skipst á skoðunum um það við forystu Öryrkjabandalagsins hvernig þeir geti notað alla þessa peninga sem á nú að fara að ausa í öryrkjana. Það hlýtur að muna alveg rosalega um það. Ég er svo sem ekki búinn að fá að heyra það nákvæmlega eða hvort ég hafi ekki tekið eftir því í greinargerðinni hvað þetta þýðir á mánuði. Ég geri ráð fyrir að þetta gæti farið á einum þriðjudegi í Dominospítsutilboð, sýnist mér. Ég held að ekki verði mikið eftir, en tilboðið innifelur tvo lítra af kók þannig að þetta er kannski ekki eins slæmt og maður er að mála þetta upp.

Í stuttu máli sagt er til skammar að þetta skuli ekki vera leiðrétt í eitt skipti fyrir öll. Það eru efni til þess. Það mun líka hjálpa ríkissjóði, nákvæmlega eins og það myndi hjálpa ríkissjóði að leyfa öryrkjum að vinna án þess að vera heftir af frítekjumarki. Ég vil eiginlega nota þetta tækifæri í fyrsta lagi til að skora á ráðherra að gera breytingar á málinu, jafnvel draga það til baka og koma með það aftur á morgun þar sem 65 aurarnir eru horfnir og þetta sé komið þannig að lagt sé til að þessi skerðing verði tekin af í einu lagi.

Í öðru lagi ítreka ég þá hvatningu mína til nefndarinnar að hún fari gaumgæfilega yfir málið og gera á því nauðsynlegar breytingar þannig að hægt sé að samþykkja málið með góðri samvisku, helst að viðhöfðu nafnakalli. Ég held að mjög vel færi á því ef málinu yrði breytt á þann hátt að þessi skerðing yrði tekin af í eitt skipti fyrir öll. Það eru efni til þess, það eru til peningar til þess, búið er að benda á það. Það er í sjálfu sér ekkert sem til þarf til að gera þetta nema smákjark og smávegis af heiðarleika og eindrægni. Það er það eina sem þarf til þess að taka þetta mál sem er ekki gott og gera það þannig úr garði að hægt sé að samþykkja það með sæmilegum hætti.