félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir tímamótaræðu um þetta mál. Það mun ekki koma þeim sem hér stendur á óvart þó að hvorki hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson né flokkur hans muni styðja þetta mál. Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um, ég ætlaði raunar ekki að fara út í það en fyrst hv. þingmaður fór sjálfur að tala um þá nefnd sem hann veitti forystu á sínum tíma leikur mér forvitni á að vita af hverju nefndin gafst upp þeim tíma.
Þegar ég kom að þessu máli sem félagsmálaráðherra voru ekki í gangi neinar viðræður við Öryrkjabandalagið um þá stefnubreytingu sem nefndin, sem hv. þingmaður leiddi, lagði m.a. til, að farið yrði í starfsgetumat og breytt almannatryggingakerfi. Af hverju gafst hv. þingmaður upp á sínum tíma á viðræðum við Öryrkjabandalagið? Af hverju var ekki lagt til í þeirri skýrslu sem skilað var að farið yrði í einhverjar aðgerðir gagnvart öryrkjum á þeim tíma? Alveg frá þeim tíma, þegar skilin áttu sér þarna stað, var tekin meðvituð ákvörðun um að skilja minnstu borgara þessa lands, örorkulífeyrisþega, eftir af því að þeir voru ekki tilbúnir að fallast á starfsgetumat og breytt almannatryggingakerfi.
Af hverju tók hv. þingmaður ákvörðun um það á sínum tíma að skilja þennan hóp algjörlega eftir? Það kemur ekki á óvart að hv. þingmaður fyllist gremju núna þegar ríkisstjórnin er búin að taka þennan hóp sem hv. þingmaður skildi eftir á sínum tíma og ætlar sér að fara í að stíga fyrsta skrefið til afnáms þessara skerðinga, ætlar sér síðan að fara í breytingar á almannatryggingakerfinu og einfalda það, líkt og nefnd hv. þingmanns (Forseti hringir.) náði ekki að leiða til lykta á sínum tíma. Gremjan er algjörlega augljós. En mig langar til að vita af hverju tekin var ákvörðun á þessum tíma um að skilja þennan hóp eftir.