149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ekki til gremja í þessum búk. Ef ráðherra langar að heyra svarið get ég endurtekið það: Gremja er ekki til í mínu hjarta nema yfir því að þetta skuli ekki vera gert eins og hjá fólki, að menn skuli bara taka þetta í eitt skipti fyrir öll. Hvers vegna var gefist upp? Það var í sjálfu sér ekki gefist upp, ef þannig má orða það, en málið var að skil á störfum nefndarinnar voru dregin í líklega tvo og hálfan mánuð meðan leitað var eftir því að ná saman breiðu samþykki og breiðri einingu um starf nefndarinnar. Því miður tókst það ekki af ástæðum sem munu kannski koma fram seinna. En það vildi þannig til að hluti af nefndarmönnum reri á móti því að sú samstaða næðist, því miður. Mikil áhersla var lögð á að það gerðist en það tókst ekki.

Um það hvers vegna þessi hópur var skilinn eftir, að fenginni þessari niðurstöðu, verð ég eiginlega að benda hæstv. ráðherra á að tala við forvera sinn í embætti sem þá sat á ráðherrastóli vegna þess að hún tók við málinu þegar nefndin hafði skilað af sér. Og það var ekki ákvörðun nefndarinnar að fara ekki í viðræður við Öryrkjabandalagið heldur var það ákvörðun Öryrkjabandalagsins, ef ég man rétt. Ég held að ráðherra málaflokksins á þeim tíma hafi ekki haft frammi mikla tilburði til þess að nálgast þann hóp. Sem betur fer var stofnuð ný nefnd. Þar settu menn pressu á öryrkja og héldu, og halda þeim í raun og veru enn, í gíslingu (Forseti hringir.) með þessu máli. Það getur vel verið að það sé huggulegri nálgun, en ekki finnst mér það.