149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:14]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nefnd hv. þingmanns skilaði auðu gagnvart þessum hóp vegna þess að hópurinn var ekki tilbúinn að gera það sem forysta nefndarinnar vildi að hann gerði. Þá skilaði nefndin bara auðu og hefur ekkert verið gert fyrir þennan hóp síðan af þeim sökum að tekin var meðvituð ákvörðun um það.

Af hverju lagði nefndin ekki til eitthvað gagnvart örorkulífeyrisþegum á þessum tíma, eins og hv. þingmaður heldur núna eldmessu um, að ganga skuli alla leið og fara í að afnema skerðingar o.s.frv.? En hann lagði það ekki til á sínum tíma. Hann ákvað meðvitað að skilja þennan hóp eftir. Þess vegna er margt í málflutningi hv. þingmanns þar sem talað er í hringi. Það finnst mér sorglegt vegna þess að ég hefði haldið að þingmaðurinn ætti að geta fagnað því skrefi sem verið er að stíga í stað þess að dvelja við þá gömlu gremju að hafa ekki náð að klára málið 2016.

Mér finnst svo sorglegt að við skulum ekki geta fagnað þessum áfanga núna. Þess vegna talar hv. þingmaður svolítið í hring í málinu, talar um að síðan eigi að fara alla leið í að afnema skerðingarnar, þegar hann lagði sjálfur til gagnvart gamla fólkinu að skerðingarnar færu bara í 45 aura á móti krónu á sínum tíma. Hvað eigum við þá að kalla það? Ekki getum við kallað það einn þriðja á móti krónu. Það verður að vera rúmlega einn þriðji eða tæpur helmingur á móti krónu.

Af hverju kemur þingmaðurinn ekki bara með okkur í þessa vegferð af jákvæðni og með það að markmiði að draga úr þessum skerðingum og bæta kjör þessa hóps sem hann skildi eftir á sínum tíma? Ég held að við hljótum að geta verið sammála um að stíga þurfi þessi skref. Ég held að við hljótum líka að geta verið sammála um að gera þurfi að breytingar á almannatryggingakerfinu.

Því miður finnst mér ekki líklegt, eins og ég hóf þetta andsvar mitt á að segja, að hv. þingmaður komi sér út úr þessari gremju og muni styðja okkur í þessu efni. Ég tel að hann muni verða á rauða takkanum og kannski er það bara gæðastimpill á málið, virðulegur forseti.