149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við höfum orðið vitni að stórfurðulegum umræðum um framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna, mál sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra var að leggja fram. Söguskýringar langt aftur í tímann hafa komið hérna fram og það sorglegasta í þessu er kannski þegar söguskýringarnar eru frá mönnum sem hafa lifað hér í himnaríki Alþingis og eru að reyna að skýra út hvernig er að vera í svartholi öryrkjans. Þarna er himinn og haf á milli. Á þeim tíma þegar sérstaka uppbótin var sett á var ég á þessum bótum og ég veit nákvæmlega hvernig hlutirnir voru þá. Á þessum tíma var lífeyririnn skertur við hrunið og á þeim tíma var öryrkjum og eldri borgurum lofað að það fyrsta sem yrði gert yrði að hækka þá. Því miður var ekki staðið við það. Kjaragliðnunin hefur ekki verið leiðrétt. Kjararáð hækkaði þingmenn upp úr öllu valdi afturvirkt. Öryrkjar og eldri borgarar fengu ekkert af því. Afturvirkar hækkanir hafa aldrei verið fyrir öryrkja eða eldri borgara.

Við skulum snúa okkur að þessu máli sem hér er til umræðu. Áður mun ég samt benda á það sem er kannski furðulegast í meðförum þessa þings undanfarið, þeirri staðhæfingu að alltaf sé verið að hugsa um öryrkjana. Þá verðum við að taka það inn í myndina að um síðustu áramót tóku gildi lög um hálfan á móti hálfum lífeyri. Tveir öryrkjar með 60.000 kr. á mánuði fá kannski 0 út úr sínum lífeyrissjóði. Þessar tvær lífeyrissjóðsgreiðslur eru færðar til þeirra sem þurfa ekkert á því að halda, hátekjumanna. Þarna er verið að gefa lífeyrisgreiðslur tveggja öryrkja fyrir einn hálaunamann. Höfum það í huga að þetta er í gangi í dag. Þess vegna er þetta óskiljanlegt. Hvað eigum við að segja um þetta mál sem hér er til umfjöllunar? Jú, það átti að vera mjög einfalt, það áttu ekki að koma 65 aurar á móti krónu. Það átti hreinlega að sameina bótaflokka, örorkulífeyri, tekjutryggingu og sérstaka uppbót. Þetta var gert við ellilífeyrisþegana.

Þetta er einfaldasta málið og nú er verið að rífast um það. Af hverju var þetta ekki gert í síðustu nefnd, Péturs Blöndals nefndinni? Ég var þar. Hvað með Þorsteinsnefndina? Ég var þar. Jú, vegna þess að það átti að troða ofan í kok á öryrkjum ólíðandi starfsgetumati. Sem betur fer var það ekki gert þá vegna þess að það mat sem átti að troða ofan í menn í Péturs Blöndals nefndinni og Þorsteinsnefndinni var verra en það mat sem var gert í Englandi á sínum tíma og hefur kostað stóran hóp af fólki lífið.

Það er himinn og haf milli þess sem þarna var gert og þess sem við gerðum í þessari síðustu nefnd. Það verður bara að halda því til haga. Við reyndum það virkilega. Það er verið að tala um að helst eigi ekki að samþykkja þetta. Auðvitað verðum við að samþykkja þetta. Það er ekki um annað að ræða vegna þess að hversu lítið sem þetta er skiptir hver einasta króna máli, því miður skiptir hver króna gífurlegu máli. Við verðum líka að átta okkur á að þetta eru lágar upphæðir eins og ég hef bent á. Þarna undir er í kringum 23.000–24.000-kall á mánuði að meðaltali og það er eiginlega óskiljanlegt að við skulum láta þetta viðgangast í dag vegna þess að ef við skoðum tölfræðina er um að ræða að á endurhæfingarlífeyri eru 400 karlar og 850 konur. Fjöldi kvenna er tvöfaldur á við karla. Ef við tökum örorkulífeyrisþega eru 2.480 karlar, 4.040 konur, enn þá nærri tvöfalt fleiri konur. Hvar er jafnréttið? Hvar eru femínistarnir? Hvar eru konurnar? Af hverju láta þær þetta viðgangast? Þarna er meiri hlutinn konur sem verið er að hirða lífeyrissjóðinn af. Það er þetta sem við eigum að einbeita okkur að.