149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem ég fylgdist með á sjónvarpsskjá fyrir utan salinn. Þar sem við hv. þingmaður sátum báðir í sömu nefndinni langaði mig að biðja hann um að rifja upp með mér ástæðu þess að ekki náðist niðurstaða í starfi þessarar nefndar árið 2016 um þátt öryrkja í endurskoðun almannatryggingalaganna. Þegar sú niðurstaða lá fyrir að lokum, kannast hv. þingmaður við að þáverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins hafi beitt sér fyrir einhverjum sérstökum viðræðum við forystu Öryrkjabandalagsins til að reyna að koma til móts við öryrkja að einhverju leyti eftir að nefndarstarfinu lauk? Eins og ég man þetta mál, og hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er rangt hjá mér, var starf nefndarinnar dregið á langinn um nokkrar vikur, líklega upp undir átta vikur, í þeirri von að saman myndi ganga, sem því miður varð ekki, og þess vegna fýsir mig að vita hvort hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins hafi gengið fram fyrir skjöldu og reynt að leiðrétta hlut öryrkja eftir þetta.