149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég er honum sammála um það og hef reyndar sýnt það æ síðan að þessar tillögur sem lutu að því að helmingur myndi skerðast voru rangar. Þær voru ekki vel fram settar og því hef ég einfaldlega skipt um skoðun í þessu máli.

Þess vegna hef ég nú rætt, ekki bara núna heldur síðan ég kom aftur inn á þing 2017, að auðvitað eigi þetta að vera þannig að eigið aflafé, hvort sem um er að ræða ellilífeyrisþega eða öryrkja, eigi ekki að skerða bætur. Þetta eru peningar sem fólk greiðir skatta af og það er umbun ríkisins fyrir það að fólk skuli vilja reyna að vinna sér inn aukagetu.

Það er út af fyrir sig aukaatriði í málinu, aðalatriðið er náttúrlega það, og ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um það, að einstaklingar séu eins virkir og hugsast getur og að einstaklingar eignist þess vegna fyllra líf, að í staðinn fyrir að vera dæmdir til einangrunar séu þeir virkir þátttakendur í þjóðfélaginu og geti þess vegna tekið þátt í daglegu lífi eins mikið og þeir kæra sig um, geta og eru færir um.