149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa stuðningi við það frumvarp sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur lagt fram um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar. Þetta mál snýst um að draga úr vægi framfærslu, þ.e. að draga úr vægi skerðinga inn í liðinn framfærsluuppbót sem er einn af greiðslubótaflokkunum í almannatryggingakerfinu. Það er mjög gott og þetta er atriði sem ég held að allir stjórnmálaflokkar hafi lagt áherslu á. Ég heyri það á umræðunni í salnum að einhverjir hefðu viljað ganga lengra í þeim efnum en eigi að síður er þetta atriði sem allir hafa verið sammála um að sé mikilvægt. Ég vona því að þingheimur allur muni sameinast um að þetta skref verði stigið.

Mér fannst það mikilvægt sem kom fram í umræðunum fyrr í dag þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór yfir aðdraganda þess hvernig bótaflokkunum sérstakri framfærsluuppbót var komið á í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem félagsmálaráðherra. Það var gríðarlega mikilvægt að koma þeim bótaflokki inn til að tryggja stöðu þeirra sem hafa allra lægstu tekjurnar innan almannatryggingakerfisins. Það var svo gert í tíð vinstri stjórnarinnar eftir hrun að standa vörð um þann bótaflokk og þar með um kjör þeirra allra lægst settu.

Það var mjög mikilvægt atriði vegna þess að auðvitað skiptir máli þegar kreppir að að standa vörð um þá sem hafa allra lökustu kjörin. Mér fannst mikilvægt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem var fjármálaráðherra í vinstri stjórninni, skyldi halda þeirri sögu til haga því að þetta á það til að bjagast og gleymast. Það er líka alveg rétt að það var 100% skerðingarhlutfall á bótaflokknum enda var gríðarlegt atvinnuleysi hér á þeim tíma og ekki hlaupið að því að fá vinnu.

Þarna tel ég að ríkisstjórnin hafði gert alveg hárrétt á sínum tíma. Ég hef hins vegar einnig bent á það, eftir að ég kom á þing, að í breyttu efnahagsástandi eigi að breyta því að vera með 100% skerðingarhlutföll á þeim bótaflokki og hér er verið að stíga það skref að fara með það niður í 65%. Ég fagna því og tel það vera til mikilla bóta.

Það er annað í frumvarpinu sem ég er gríðarlega ánægð með sem lýtur að því að þegar kemur að útreikningum á sérstöku uppbótinni á lífeyri, framfærsluuppbótinni, þá eigi ekki að telja til tekna nema helminginn af fjárhæð aldurstengdrar örorku. Þetta er atriði sem mun skipta máli fyrir þá sem fara á örorku mjög ungir og hafa þar af leiðandi ekki haft tækifæri til að vinna sér inn réttindi á vinnumarkaði. Þetta er atriði sem ég er mjög ánægð með því að þessi bótaflokkur hefur ekki virkað sem skyldi í kerfinu eins og það lítur út núna. Hérna er verið að laga hluti og verið að laga þá á mjög góðan hátt.

Ég tel að þetta frumvarp sé mjög mikilvægt skref sem innleiðing í því að við getum breytt almannatryggingakerfinu. Ég hef verið starfandi í þeirri nefnd sem hefur fjallað um breytingar á almannatryggingakerfinu og með mér í þeirri nefnd voru hv. þm. Ásmundur Friðriksson og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson. Þar voru einnig fulltrúar frá Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálp, ASÍ og aðilum vinnumarkaðarins.

Mig langar að segja það hér í tengslum við þetta frumvarp að vinnan í þeirri nefnd og umræðan í þeirri nefnd um tilgang og eðli almannatryggingakerfis og hvernig slíkt kerfi eigi að líta út í samfélagi 21. aldarinnar var alveg gífurlega góð. Í mínum huga eru nefnilega nokkrir þættir sem þarf að hafa í huga. Við búum við allt annan og breyttan vinnumarkað en það sem var fyrir einhverjum árum eða áratugum. Harkan á vinnumarkaðnum er oft gríðarlega mikil. Við búum líka við að fólki á örorkulífeyri hefur fjölgað. Það hefur verið mikil fjölgun meðal ungs fólks en það hefur líka orðið fjölgun meðal fólks með stoðkerfisvandamál og svo auðvitað í ýmsum öðrum hópum. Það tengist m.a. því að við búum við miklu betri læknisfræði. Við búum við að það eru til miklu betri lyf þannig að sem betur fer er fullt af fólki sem áður fyrr gat alls ekki tekið þátt á vinnumarkaði eða bara hreinlega dó sem lifir núna í samfélaginu en oft með skertri starfsgetu. Það er jákvætt en það er eitthvað sem samfélagið þarf að laga sig að og finna út hvernig við getum styrkt þann hóp til að hann geti tekið þátt í samfélaginu. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að kerfið nái að endurspegla þetta allt saman, þ.e. almannatryggingakerfið, þannig að það tryggi þeim sem ekki geta stundað neina atvinnu viðunandi framfærslu en einnig að það styðji við það að fólk með starfsgetu taki þátt og sé virkt á vinnumarkaði.

Svo þarf að leggja gríðarlega aukna áherslu á endurhæfingu til þess að við fáum sem flesta sem hafa skerta starfsgetu, byggja þá upp til að þeir geti tekið þátt á vinnumarkaðnum. Hérna þarf að stilla saman gríðarlega marga og ólíka strengi til þess að kerfið virki fyrir alla þá ólíku hópa en sé á sama tíma grunnöryggisnet sem við þurfum að hafa fyrir þá sem ekki geta aflað sér tekna á vinnumarkaði. Þetta er flókið púsluspil. Þetta er það sem við vorum að vinna með í nefndinni í því hvernig ætti að breyta almannatryggingakerfinu á Íslandi. Þar skipti innlegg bæði fulltrúar Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands miklu, sem auðvitað þekkja það svo gríðarlega vel því að þeir eru í tengslum við alls konar fólk alla daga sem er að kljást við alls konar fötlun eða alls konar heilsufarsvandamál en sem vill um leið vera þátttakendur í því samfélagi sem við eigum öll saman.

Nú bíður það hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar að púsla því öllu saman og smíða frumvarp. Ég hlakka til þess að við tökumst á við þetta risavaxna verkefni. En það er framtíðarmúsíkin. Þetta frumvarp sem við erum að ræða í dag, um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, lít ég á sem upptakt inn í þá vinnu vegna þess að hér er verið að draga úr skerðingum í bótaflokknum sem kallast sérstök framfærsluuppbót. Ég vona að það verði til þess að fólk sem fær greiðslur í þeim bótaflokki en getur að einhverju leyti tekið þátt á vinnumarkaði muni gera það, því að það er líka mikilvægt ef við ætlum að gera breytingar á kerfinu að við sjáum svolítið betur hvernig fólk getur tekið þátt á vinnumarkaði.

Mig langar þess vegna að nota þær mínútur sem ég hef að lokum og taka undir með hæstv. ráðherra þegar hann talaði um það í framsöguræðu sinni að hér skipti aðkoma vinnumarkaðarins gríðarlega miklu máli. Það held ég að verði eitt af því mikilvægasta í komandi vinnu, að hafa kerfið þannig að það verði ekki einungis á ábyrgð öryrkja að fara og leita sér að vinnu því að það gengur auðvitað ekki upp ef vinnumarkaðurinn er þannig að hann vill ekki taka á móti fólki í vinnu. Þá erum við auðvitað bara að setja fólk í sjálfheldu. Þess vegna skiptir það svo miklu að vinnumarkaðurinn sé með okkur í liði og hinn opinberi vinnumarkaður sé með okkur í liði í því að skapa störf og ráða fólk til vinnu. Það þýðir ekkert að segja við fólk með skerta starfsgetu: Nú skalt þú bara að fara og vinna fyrir þér. Ekki ef það er enginn á hinum endanum sem er tilbúinn til að ráða fólk til vinnu. Þannig að þetta þarf allt saman að vinna í samfellu.

Þetta verður gríðarstórt og mikið verkefni. En aftur segi ég að ég fagna frumvarpinu sem við ræðum hér í dag og tel það vera skref inn í það að breyta og bæta almannatryggingakerfið, öryrkjum þessa lands til hagsbóta.