149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir hennar ágætu ræðu. Ég ætla ekki að vera með langa tölu en ég heyrði að hún vísaði hér til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann talaði um að ég væri að fara með einhverjar dylgjur, gaf það í skyn í það minnsta. Það er aðeins ein spurning: Staðreynd er sú að árið 2009 er komið á krónu á móti krónu skerðingu. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir segir að það hafi verið gert til að koma til móts við þá sem höfðu ekki möguleika á að komast út á vinnumarkaðinn eða gera nokkurn skapaðan hlut. Ég missti einhvern veginn alveg af því á þeim tíma þegar krónu á móti krónu skerðingu var komið á að framfærslan mín hefði breyst um eina einustu krónu. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Nýttist það svigrúm sem skapaðist þá í ríkissjóði þeim sem voru inni og voru ekki að vinna? Var það nýtt fyrir hina sem heima sátu og gátu ekki aukið framfærslu sína eða komið sér upp neinu um eina einustu krónu?