149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ef ég skil það rétt er hv. þingmaður að segja að króna á móti krónu skerðingin sem komið var á árið 2009 hafi væntanlega nýst í þessari framfærsluuppbót sem varð til þess að tosa einstaklinga upp, mig minnir að í kringum þetta tímabil hafi það verið í kringum 186.000 kr. Hv. þingmaður er að segja að það hafi híft þetta upp sem því nam. Króna á móti krónu skerðingin hafi í rauninni verið sett í þessa sérstöku framfærsluuppbót til að hífa þá lægstu upp í eitthvert viðmið sem var talið vera lágmarksviðmið. Ég get ekki sagt neitt vegna þess að þó að maður sé nú ekki eldri en raun ber vitni er minnið ekki það gott að ég muni upp á krónu hvernig því var háttað 2009. Það eina sem ég man árið 2009 er að þá var bágt í búi að vera öryrki á Íslandi nákvæmlega eins og það er nú. Það er ekki flóknara en það.

En króna á móti krónu skerðingin er búin að vera hér við lýði í tíu ár. Þetta litla skref sem er verið að taka í áttina að því að afnema hana er til bóta. Allt er gott þótt lítið sé.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að það sé löglegt að mismuna einum þjóðfélagshóp eins og gert er við öryrkja með krónu á móti krónu skerðingu? Ég ætlast ekki til að hv. þingmaður sé í dómarastóli en svona þegar við erum að tala um lögmæti og markmið reglnanna okkar, bæði hvað lýtur að stjórnarskrá og stjórnsýslulögum (Forseti hringir.) um meðalhóf og jafnræði og allt þetta, hvort það geti ekki verið á svolítið gráu svæði (Forseti hringir.) hvernig við förum með þann sérstakra þjóðfélagshóp.