149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sérstöku framfærsluuppbótinni var ekki komið á í tíð vinstri stjórnarinnar. Henni var ekki komið á árið 2009 heldur var henni komið á áður í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra og hafði verið eitt af baráttumálum hennar. Henni var sem sagt haldið áfram eftir árið 2009 en þá voru til litlir peningar í ríkissjóði og þá var sett þessi mikla tekjuskerðing á bótaflokkinn. Það var gert til þess að standa vörð um þá sem hefðu ekkert annað sér til lífsviðurværis en tekjur almannatrygginga. Hagur ríkissjóðs var þannig að hjá þeim sem höfðu meiri sjálfsbjargargetu á vinnumarkaði komu skerðingar á móti. Í mínum huga er það algjörlega hárrétt hugsun við þær efnahagsaðstæður sem uppi voru á þeim tíma.

Nú eru hins vegar efnahagsaðstæðurnar allt aðrar og hafa verið það í þó nokkurn tíma og þess vegna löngu orðið tímabært að breyta þessu til baka. Varðandi það hvort svona tekjutengingar séu löglegar þá tel ég að þær séu það. Það er reyndar þannig með nálega alla bótaflokka í almannatryggingakerfinu að þeir hafa einhverja skerðingu. Skerðingarhlutföllin eru misjöfn eftir því hvort um er að ræða örorkulífeyri, tekjutryggingu eða annað. (Forseti hringir.) En já, ég tel að þetta standist algjörlega lög.