149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur kærlega fyrir ræðuna, sem var alveg afbragð. Það var sérstaklega eitt sem kom fram í máli hv. þingmanns sem ég man að við ræddum á sínum tíma þegar við sátum saman í nefnd, sem borið hefur á góma hér fyrir hversu góðu verki hún skilaði. Þá man ég eftir því að við ræddum einmitt varðandi þetta mál að áður en hægt væri að hugsa til starfsgetumats eða uppbyggingar á því sviði þyrfti að byggja upp kerfi eða net af hlutastörfum.

Ég man eftir því að á þeim tíma var rætt um það manna á meðal í nefndinni að það væri kannski ráð að Íslendingar færu að dæmi annarra þjóða, eins og t.d. Þjóðverja og vissra ríkja í Bandaríkjunum í því efni, að það yrði hreinlega lögbundið að ríkinu, og þá hugsanlega sveitarfélögum, yrði skylt að ráða í visst hlutfall af hlutastörfum. Með því móti væri hægt að setja einhverjar kröfur á einkamarkaðinn. Ég held að menn hafi verið sammála um að þetta yrði að byrja hjá ríkinu sjálfu.

Þess vegna spyr ég hvort hv. þingmaður sé sama sinnis, að ríkið þurfi að byrja hjá sjálfu sér með því að lögleiða eitthvert hlutfall þar sem yrði að ráða fólk með skerta starfsgetu og skaffa þar með eða búa til eða skipuleggja hlutastörf þannig að hægt væri að auka virkni þess hóps, sem okkur hefur ekki enn tekist að gera í dag. Ég held að við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er ekki rétta leiðin, að byrja á því að gera starfsgetumat og ætla síðan að fara að skipuleggja ný störf. Mig langar því til að heyra aðeins ofan í þingmanninn varðandi þetta.