149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir spurninguna. Það er mjög mikilvægt að við ræðum um vinnumarkaðinn í þessu samhengi. Það er ýmislegt sem ríkisvaldið getur gert til þess að búa til það samfélag og það umhverfi sem styður við atvinnuþátttöku. Mig langar bara að minna á að á síðasta þingi var samþykkt hér bann við mismunun á vinnumarkaði, sem hefur lengi verið talað um að sé einmitt svo gríðarlega mikilvægt fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu.

Við vorum ekki komin þangað þegar ég og hv. þingmaður sátum saman í nefnd. Þá var einmitt talað um mikilvægi þess að sú löggjöf yrði samþykkt. Þannig að búið er að taka það skref núna og það er gott. Ég held að ég og hv. þingmaður séum algjörlega sammála um það. Svo held ég að það sé líka mjög mikilvægt að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi. Hvort binda eigi það í lög veit ég ekki. Ég hef ekki velt því sérstaklega fyrir mér hverjir séu kostirnir og hverjir séu gallarnir við slíkt kerfi.

Það eru ýmsar leiðir farnar í löndunum í kringum okkur og samkvæmt því sem ég best þekki til og veit þá er engin þeirra fullkomin og leiðir ekki til fullkominnar niðurstöðu. Þannig að ég ætla bara að leyfa mér að svara því og segja að ég veit ekki hvort það sé sniðugt að festa slíkt í lög. En hið opinbera á að ganga á undan með góðu fordæmi og skoða hvað gengið hefur vel, læra af því og forðast það sem gengið hefur illa annars staðar.