félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta svar. Komið hefur fram að fjölgun öryrkja er gríðarmikil hér á Íslandi. Hún virðist vera sérstaklega mikil í yngri eða yngstu aldursflokkunum, sem er mikið áhyggjuefni. Þá sérstaklega meðal ungra karlmanna, ef ég má draga það fram, og það er mikið áhyggjuefni.
Þess vegna ræði ég þetta að nú erum við búin að búa við þetta kerfi mjög lengi og auðvitað eru sumir 100% öryrkjar, þ.e. þeir sem fæðast í því ástandi eða verða fyrir slæmum slysum o.s.frv., en það mat sem framkvæmt er á Íslandi yfir höfuð, kannski ekki alveg 100% en yfir höfuð, virðist annaðhvort snúast um að menn séu metnir 75% öryrkjar eður ei. Það er skiljanlegt að slíkt skuli gerast vegna þess að þeir sem metnir eru 74% öryrkjar eða minna fá ekki bætur sem duga til lífsviðurværis fyrir nokkurn mann.
Spurningin er hvort það kunni að vera að við séum með þessu kerfi, þ.e. 75% eður ei, að múra fólk inni í einhverjum gildrum. Er það mögulegt fyrir okkur? Þá erum við reyndar farin að nálgast starfsgetumatið, sem ég veit að er mjög viðkvæmt mál hjá öryrkjum. Spurningin er því hvort hægt væri með einhverju móti að meta t.d. 50% o.s.frv. með því fororði að bæturnar sem því fylgdu, og þá væntanlega ef það væru til störf við hæfi, myndu duga fólki til lífsviðurværis.
Spurningin er þessi: Telur þingmaðurinn að það geti verið að það kerfi sem við erum með núna, 75% eða ekkert, „búi til“ fleiri öryrkja? Læsir það ef til vill fólk inni til frambúðar sem lendir í þessari illu aðstöðu?