félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að mér þykir umræðan sem hefur farið fram í dag um þetta tiltekna mál mjög góð. Mér finnst fólk vera lausnamiðað og í góðri rökræðu. Við erum að fjalla um þetta mikilvæga mál sem frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar er.
Markmið frumvarpsins er tvíþætt. Það er annars vegar að draga úr áhrifum annarra tekna en bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar við útreikning á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Svo hins vegar, sem er kannski stóra málið í þessu öllu saman, er það sem við höfum hingað til kallað krónu á móti krónu skerðingu. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að króna á móti krónu skerðing hafi verið talsvert gagnrýnd og það er sannarlega rétt, enda sjá það allflestir ef ekki allir í þingsal að það er ekki sæmandi nokkrum manni að viðhalda slíkri skerðingu. Ég vil halda því fram að þetta frumvarp sé leið til að koma málum eitthvað aðeins áfram.
Ég vil taka undir orð Öryrkjabandalagsins og gagnrýna það að Öryrkjabandalagið er í nokkru myrkri hvað varðar þetta mál vegna þess að þau vita ekki hvað tekur við. Enn og aftur er hópur skilinn eftir. Ég held að við ættum að taka aftur umræðu um starfsgetumatið í þingsal. Ég held að starfsgetumatið, sem kynnt var núna um daginn, sé góðra gjalda vert. Á móti finnst mér byrjað á nokkuð röngum enda. Við höfum reynslu t.d. frá Danmörku þar sem starfsgetumat var innleitt og það má halda því fram að sú innleiðing hafi mistekist. Það sem eftir stendur eru svokölluð „flex jobs“, með leyfi forseta, sem við höfum kallað störf með stuðningi eða atvinnu með stuðningi. Það er það sem stendur eftir í Danmörku að hafi virkað.
Þá er ég kannski komin á þann punkt sem ég vildi nefna, að við þurfum að snúa við forgangsröðun, þ.e. byrja á því að innleiða hlutastörfin, innleiða þau störf sem standa fólki til boða sem getur sinnt slíkum störfum. Það er hægt. Við erum með fyrirmynd, meira að segja hér á landi og það er þegar við innleiddum NPA-samninginn. Þar var hreinlega auglýst eftir fólki sem óskaði eftir NPA-stuðningi, ef svo má segja, persónulegum stuðningi, og voru margir sem sóttu um. Það var vilji til þess að fá þá notendastýrðu persónulegu aðstoð og ég er sannfærð um að ef við færum þá leið með atvinnu með stuðningi, þ.e. að auglýsa eftir fólki, yrði það sannarlega fólk sem hefði getu eða alla vega 100% vilja til þess að leggja sitt af mörkum. Síðan þegar búið væri að metta þann pakka væri hægt að auglýsa á ný. Vonandi væri hægt að koma því þannig fyrir að það væri aðeins lítill hópur einstaklinga sem sæti eftir og þann hóp ættum við hreinlega að gera það vel við að hann byggi við mannsæmandi lífskjör.
Ég ítreka að ég tel að verið sé að byrja á röngum enda með því að fara fyrst í þessa kerfisbreytingu sem virkar mjög flókin og er sett fram á mjög óskýran máta ef taka má orð Öryrkjabandalagsins trúanleg, sem ég vel að gera. Ég minntist á í ræðu í morgun að Öryrkjabandalagið hefði sent okkur póst í gær til að minna okkur á að það vantaði fjármagn í málaflokkinn. Ég get tekið undir það og er viss um að allir geti tekið undir það. Ég vil líka benda á að því hefur verið haldið fram að fjölgun sé á öryrkjum og ég held að það sé beinlínis rangt. Ég minnist þess að hafa séð viðtal við einstakling sem sá um að afgreiða örorkumat og hann sagði verið væri að taka niður biðlista eftir örorku. Það hafi gengið sérstaklega vel árið 2016 og þar með hafi nýgengi örorku aukist það árið, mig minnir 2017 og jafnvel líka 2018 en núna í ár fari það minnkandi. Ég er ekki að draga úr því að vissulega er fólk sem lendir á örorku og ég tek undir að það vill enginn vera öryrki. Ég þekki það og veit að það er ekki þannig sem fólk hugsar. Ég tek samt fram að það er nauðsynlegt að við vitum hvert við stefnum og það væri ráð ef hæstv. ráðherra myndi koma með skýringu á því hvað kæmi næst.
Í morgun fengum við bréf frá Landssamtökunum Þroskahjálp. Með leyfi forseta langar mig að vitna til þess í lokin:
„Landssamtökin Þroskahjálp telja að ef þessar breytingar ná fram að ganga sé um að ræða lítið skref í rétta átt. Fatlað fólk sem á vegna fötlunar sinnar og lítilla tækifæra á vinnumarkaði litla eða enga möguleika til að afla sér atvinnutekna verður eftir sem áður að draga fram lífið á sultarkjörum. Kjörum sem eru í engu samræmi við lífskjarasamningana svonefndu og verða greiðslur til um 70% öryrkja töluvert lægri en atvinnuleysisbætur sem enginn er of sæll af en flestir verða þó sem betur fer aðeins tímabundið að láta duga fyrir framfærslu sinni.
Landssamtökin Þroskahjálp skora á ríkisstjórnina og Alþingi að bæta nú þegar kjör fatlaðs fólks þannig að það eigi möguleika á mannsæmandi lífi og getið tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra sem í landinu búa.“
Svo mörg voru þau mikilvægu orð og ég læt þau standa hér eftir.