149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[13:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég fór í það eftir fyrri ræðu mína að fletta skýrslu sem var gerð um starf nefndar sem ég starfaði í á sínum tíma og skilaði af sér í febrúar 2016 og komst að því að það starf sem unnið var í þeirri nefnd var náttúrlega gríðarlega gott og væri hverjum manni gagnlegt að lesa þessa skýrslu og niðurstöður hennar sem upplyftingu fyrir það sem þarf að gera, er verið að gera núna o.s.frv.

Það vildi svo illa til að tölvan mín dó þegar ég ætlaði að hefja lestur úr skýrslunni fyrir hæstv. ráðherra sem þarf á því að halda en ég get ekki annað en sent honum þessa skýrslu á eftir eða krók á hana þannig að hann geti sjálfur lesið hana í gegn og séð sem sagt hversu vel tímanum var varið í þessari nefnd og hversu illa honum hefur verið varið síðan. Það eru nú rúm þrjú ár síðan þessi nefnd lauk störfum.

Aðalatriðið er að það skref sem er stigið núna til að afnema krónu á móti krónu skerðingu er svo lítið að það er til hreinnar skammar. Ég held að ég verði að vitna í orð formanns Öryrkjabandalagsins þar sem hún sagði, með leyfi forseta:

„Hefðu þeir nú ekki getað haft þetta alla vega helming?“

Samkvæmt þeim tölum sem hæstv. ráðherra las okkur áðan gæti ég trúað því að þessi helmingur væri milljarður. Það er þá sami milljarðurinn og var tekinn af í jólabókaflóðinu þegar við vorum að samþykkja fjárlögin þar sem upphafleg upphæð til þess arna var 4 milljarðar en fór niður í 2,9. Það hefði þá líklega dugað til þess að „halvera“ þetta mál. Þessi milljarður er til, það er bara spurning um viljann til að ráðstafa honum á réttan hátt.

Eitt vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að gera og það er að byrja á réttum enda. Ég fullvissa hann um að hann myndi fá mikinn stuðning innan þings, ekki síst frá þeim sem hér stendur og þeim sem í kringum hann eru, til að styrkja undirbúning þess að hægt sé að koma á starfsgetumati með því að gera þær breytingar á vinnumarkaði, og það eru hæg heimatökin hjá hinu opinbera, að búa hér til og skipuleggja hlutastörf handa þeim sem hafa skerta starfsgetu með það sveigjanlegum hætti að þeir sem t.d. eru hugsanlega færir um að vinna viku í senn en síðan ekki geti fengið störf við hæfi með því náttúrlega að hækka þessa upphæð verulega eins og þarf að gera.

Núna er ráðherrann og ríkisstjórnin eiginlega í hlutverki bílasala. Þau eru búin að segja að þau ætli að skjóta inn smáupphæð en restin komi á næsta ári. Fólk á að treysta þeim. Einu sinni var orðtak haft um amerískan stjórnmálamann og það voru sett upp plaköt af honum úti um allan bæ með mynd af honum þar sem var spurt: Myndir þú kaupa notaðan bíl af þessum manni? Ég er ekki viss um að ég myndi kaupa notaðan bíla af hæstv. ráðherra. Þess vegna er ég ekki alveg viss um að ég myndi treysta honum til þess, þó að hann sé búinn að henda hérna inn inngreiðslu í þetta mál gegn loforði um að gera meira seinna, að hann gerði meira seinna, ekki þá kannski fyrr en miklu seinna, t.d. eins og rétt fyrir næstu kosningar eða eitthvað slíkt.

Ég á ekki von á því að sjá stórkostlega bót í þessu máli frá þessu litla skrefi hér næstu misserin. Ég treysti því ekki. — Ég ætla að biðja forseta um að sjá til þess að ekki sé kliður í hliðarsal.

Ég beini því til hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar að þau taki á sig rögg og taki þetta mál til endurskoðunar og að nefndin geri það líka þannig að sú hungurlús sem hér er sett fram verði aukin þannig að muni um hana fyrir þá sem svo sárlega þurfa á henni að halda.