dreifing vátrygginga.
Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um dreifingu vátrygginga. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og frá Fjármálaeftirlitinu en einnig bárust umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja, auk minnisblaðs ráðuneytisins.
Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlöggjöf um dreifingu vátrygginga taki gildi og komi í stað eldri laga um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005. Með lögunum verða tekin upp í íslenskan rétt tiltekin ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2016/97 um dreifingu vátrygginga, samanber ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 214/2018, frá 26. október 2018.
Í c-lið 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins kemur fram að vátryggingarsölumaður megi ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað. Í umsögn sinni gerðu Samtök fjármálafyrirtækja athugasemd við að þetta hæfisskilyrði væri ótímabundið og bentu á að annars staðar í lögum mætti finna ákvæði þar sem sambærileg skilyrði væru bundin við að viðkomandi hefði ekki hlotið dóm fyrir refsivert athæfi undanfarin tíu ár.
Í minnisblaði til nefndarinnar benti ráðuneytið á að í sambærilegu ákvæði tilskipunarinnar væri ekki að finna tímamörk. Í sambærilegum ákvæðum í dönskum og norskum lögum væri ekki heldur að finna tímamörk en þar væri skilyrðið hins vegar þannig afmarkað að eðli hins refsiverða brots rýrði möguleika viðkomandi til að njóta trausts og sinna starfi sínu með fullnægjandi hætti. Í samráði við ráðuneytið leggur nefndin til breytingu á c-lið 1. mgr. 23. gr., sem og á sambærilegum ákvæðum í d-lið 1. mgr. 22. gr. og c-lið 1. mgr. 24. gr., í þessa veru.
Í 45. gr. frumvarpsins kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að starfsemi útibúa erlendra félaga hérlendis sé í samræmi við ákvæði laganna. Í umsögn Fjármálaeftirlitsins til nefndarinnar er lagt til að orðalagi 1. mgr. ákvæðisins verði breytt og þar nánar skýrt á grundvelli hvaða ákvæða stofnunin hefur heimild til að beita sér gagnvart dreifingaraðila samkvæmt tilskipuninni. Nefndin fellst á ábendinguna og leggur til að í stað 1. og 2. mgr. 45. gr. komi ein ný málsgrein þar sem tiltekið verður að Fjármálaeftirlitið geti gripið til viðeigandi ráðstafana hafi stofnunin ástæðu til að ætla að starfsemi útibús hér á landi sé ekki í samræmi við heilbrigða viðskiptahætti samkvæmt 32. gr. eða 1.–2. mgr. 33. gr.
Samkvæmt frumvarpinu öðlast það lagagildi 1. ágúst 2019. Fyrir nefndinni hafa komið fram sjónarmið um hvort tveggja, að flýta eða seinka gildistökunni. Í minnisblaði sem ráðuneytið sendi nefndinni er forsaga frumvarpsins rakin frá gildistöku tilskipunarinnar í Evrópusambandinu og upptöku hennar í EES-samninginn og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til að fresta gildistöku frumvarpsins frekar. Í umsögn sinni og á fundi nefndarinnar mæltu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins með því að frumvarpið tæki þegar gildi. Bentu fulltrúarnir á að nauðsynlegt væri að 44. og 45. gr. frumvarpsins, um eftirlit með aðilum sem hafa starfsleyfi í öðru aðildarríki og hafa stofnað útibú hér á landi eða veita þjónustu hér á landi án starfsstöðvar, tækju þegar gildi, enda væru þeir aðilar þegar farnir að starfa eftir tilskipuninni sem verið er að innleiða og tók gildi í Evrópusambandinu 1. október 2018. Óheppilegt væri að réttarstaða innlendra og erlendra aðila yrði misjöfn fram til 1. ágúst nk. sem einnig þýddi að neytendur nytu misjafnrar réttarverndar eftir því hvort þeir stunduðu viðskipti við innlenda eða erlenda aðila á þessu sviði.
Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að gildistökuákvæðinu verði breytt þannig að lögin öðlist þegar gildi. Nefndin bendir á að um nokkurt skeið hefur legið fyrir að tilskipunin verði innleidd í íslenskan rétt. Að sama skapi er nefndinni kunnugt um að tíma taki fyrir innlenda aðila að aðlagast nýju regluverki og mælist til að tekið verði tillit til þess við framkvæmd eftirlits.
Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir álitið rita Óli Björn Kárason formaður, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Víglundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson framsögumaður, Smári McCarthy og Silja Dögg Gunnarsdóttir.