149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[15:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns ritaði ég undir nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar með fyrirvara en með þessu frumvarpi er lagt til að núverandi heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar og úttektar á viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sem að óbreyttu fellur úr gildi 30. júní nk., verði framlengd um tvö ár, til 30. júní 2021.

Fyrirvari minn er vegna þessa sem ég mun nú fara yfir. Frumvarpinu er ætlað að létta skattbyrði tiltekins hóps skattgreiðenda til húsnæðiskaupa. Til þess að fjármagna það verður skattbyrðin flutt til og lögð á skattgreiðendur framtíðarinnar. Úrræðið nýtist hvað best þeim sem best standa. Sveitarfélögin hafa mótmælt samráðsleysi og skorti á mótvægisaðgerðum vegna tekjutaps þeirra verði frumvarpið að lögum. Auk þess gengur frumvarpið gegn þeirri meginhugsun sem séreignarsparnaðarkerfið er byggt á.

Herra forseti. Þetta er nokkuð mikill fyrirvari og nú spyrja menn: Hvers vegna er sú sem hér stendur ekki á móti frumvarpinu? Því er til að svara að þegar kjarasamningar voru undirritaðir 3. apríl sl. voru gefin fyrirheit um samþykkt þessa frumvarps þannig að þetta sem tilgreint er í frumvarpinu er í rauninni liður í kjarasamningsgerðinni. Stéttarfélögin leggja ríka áherslu á að staðið verði við það fyrirheit og þess vegna mun Samfylkingin samþykkja frumvarpið. En þegar breytingin var gerð á sínum tíma í tengslum við svokallaða leiðréttingu vorum við með efasemdir um að það ætti að fara svona með séreignarlífeyrissparnaðinn einmitt af þeim ástæðum sem ég taldi upp sem er fyrirvari minn við nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég hef lokið máli mínu.