149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum aðgerðir til að stemma stigu við kennitöluflakki sem er afar brýnt málefni og ég fagna sérhverri aðgerð sem miðar að því að kveða þann vágest niður. Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi og ítreka að það þarf auðvitað að skoða þetta áfram, eins og kemur reyndar fram í nefndarálitinu, það þarf að ganga lengra, það þarf að skoða þær leiðir. Þetta er viðkvæmt mál að mörgu leyti þar sem hér takast á sjónarmið um heilbrigða samkeppni annars vegar og hins vegar atvinnuréttindi manna. Þess vegna er brýnt að það verði skoðað áfram þótt þetta frumvarp verði að lögum. Það er eitt sem ég tel varðandi þetta frumvarp, að það þurfi að bíða eftir dómsniðurstöðu, þ.e. ef sá sem rekur fyrirtæki væri ákærður og dæmdur í framhaldinu fyrir brot á 262. gr. hegningarlaga og getur svo í framhaldinu verið dæmdur í atvinnurekstrarbann, ef ég skil þetta rétt. Þetta getur tekið óratíma, ár og daga. Ef ég miða við venjulegan framgang refsimála getur þetta tekið tvö, þrjú, fjögur, jafnvel fimm ár. Brotið getur verið orðið mjög gamalt og viðkomandi maður getur verið búinn að stofna annað fyrirtæki, jafnvel tvö, og farið oftar á hausinn þannig að ég geri pínulitla athugasemd við að sú leið er ekki mjög fljótvirk en hún er varfærin og það er gott. Við þurfum að stíga varlega til jarðar en ég geri svolítið athugasemd við hvað þessi leið er seinfarin.

Þeir sem reka fyrirtæki á hefðbundinn og heiðarlegan hátt verða fyrir samkeppni þeirra aðila sem þarna mæta með einhver fyrirtæki, safna skuldum, lifa hátt og stutt, falla svo og skilja eftir sig skuldahala eins og hefur verið mikið rætt í samfélaginu. Þeir þurfa að sæta því að eiga í samkeppni við aðila sem virðast í mörgum tilvikum gera sér leik að því að stofna félög, reka þau í skamman tíma og skilja eftir skuldir og hlaupa burt með einhvers konar ágóða. Þetta er vandamálið og það er náttúrlega ómöguleg samkeppnisaðstaða fyrir þá sem starfa í því ekki fyrir einn dag heldur til lengri tíma og við verðum að vinna áfram í málinu. Ég brýni hæstv. ráðherra og nefndina til að halda áfram því verki og láta ekki staðar numið og reyna að finna leiðir sem eru skjótvirkari og árangursríkari.

Ég hef alltaf haldið að lausnin væri falin í því að þeir sem fara í gjaldþrot með atvinnurekstur sinn og eru þar í stjórn, hugsanlega stjórnarmenn eða þá formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri — það þyrfti auðvitað að skoða hversu langt menn ganga og ef þeir gera það kannski tvisvar á einhverju árabili fari þeir sjálfkrafa í atvinnurekstrarbann í tiltekinn árafjölda.

Mér er kunnugt um að það viðhorf sem ég er að lýsa hefur sætt andstöðu. Menn hafa borið fyrir sig atvinnuréttindi. Ég held að það sjónarmið, þótt þungt vegi, sé alls ekki nægilega þungt til að vega upp á móti þeirri slæmu samkeppnisaðstöðu sem verður á markaði í hinum og þessum atvinnugreinum þegar menn stunda þennan leik, þetta svokallaða kennitöluflakk. Þá finnst mér að þessa leið væri alveg raunhæft að fara þó að eftir sé að sníða hana betur að þeirri hugmynd sem ég er að nefna, sem er alls ekki ný og alls ekki mín heldur hefur oft komið upp áður.

Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að skoða þetta, sérstaklega með tilliti til þess að sú leið sem hér er farin er seinfarin, tekur langan tíma og gefur mönnum tiltölulega rúmt svigrúm til að ástunda iðju sem ég held að við flest séum andsnúin og viljum ekki sjá í samfélagi okkar.

Að öðru leyti vonast ég til að þetta sé bara eitt skref af mörgum til að færa þau mál sem kennitöluflakk er til betri vegar.