149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Já, það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu þar sem er gerður samanburður við nágrannalönd. Mér sýnist í fljótu bragði, herra forseti, að þetta sé með þeim hætti í einhverjum nágrannalöndum, þá er ég að tala um Norðurlöndin, að þar sé gripið til atvinnurekstrarbanns strax í kjölfarið á gjaldþroti. Þess vegna lýsi ég furðu minni á því að sú leið sé ekki farin hér. Ég veit ástæðuna, ég hef séð, lesið og heyrt álit margra stjórnarþingmanna, sérstaklega úr Sjálfstæðisflokki Íslands, um að þetta sé svo mikil skerðing á atvinnufrelsi manna. Það er auðvitað hárrétt en það þarf að vega upp á móti því sem ég nefndi í ræðu minni um samkeppnisstöðuna sem er algjörlega óviðunandi fyrir fyrirtæki sem eru að keppa við svona aðila. Það eru daglega sögur í þjóðfélaginu um að menn séu að keppa við aðila sem ástunda þennan leik. Þeir eru ekki merktir eða neitt slíkt og ekki hægt að sérgreina þá en þeir eru þarna. Menn eru að keppa við þetta í samkeppni, algjörlega óviðunandi, í ákveðnum atvinnugreinum, mjög algengt.

Þetta er líka stórkostlegt tap á hverju einasta ári og þá væri rannsóknarefni að kanna hvað það nemur háum fjárhæðum sem samfélagið sjálft, ríkissjóður, tapar á á slíku hátterni. Það má vega það líka á móti hinu ágæta atvinnufrelsi sem iðulega er borið við þegar þetta kemst til tals.