149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:54]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alveg nákvæmlega sömu áhyggjur og hv. þingmaður hvað þetta varðar. Ég er mikið upptekinn af heilbrigðri samkeppni. Menn hafa áhyggjur af þessum atriðum en svo hefur enginn áhyggjur af því að við erum með ríkisútvarp sem getur gert hvað sem er gagnvart einhverjum einkamiðlum. Er það heilbrigð samkeppni? Fyrirtækið getur bara tekið peninga frá skattgreiðendum. Hvað er heilbrigð samkeppni? Hún er víða óheilbrigð í mínum huga.

Við horfum á risaspítala eins og Landspítala – háskólasjúkrahús sem getur allt í einu tekið ákvörðun um að fara í blóðrannsóknir sem aðrir hafa verið að sinna og enginn á séns í þeirri samkeppni. Það kalla ég ekki heilbrigða samkeppni. Við getum endalaust farið í vangaveltur um heilbrigða samkeppni. Ég er hins vegar alveg á því að augljóslega sé hún stundum óheilbrigð og þetta góða dæmi um B og BB er auðvitað alveg þekkt. Maður hefur samt haldið að markaðurinn myndi svolítið leiðrétta það þegar B er í viðskiptum og fer svona að þar sem menn átta sig á að eitthvað hafi verið sérkennilegt og allt í einu er komið BB með sama fólki. Af hverju á ég þá að hafa viðskipti við þetta fólk? Ég get ekki svarað því nema fyrir minn part, ef ég tapa á einhverjum fer ég ekki í viðskipti við hann aftur nema hafa einhverjar tryggingar. Ég veit ekki hversu mikið vandamál þetta er en ég er samt algjörlega fastur í því, hv. þingmaður, að ég vil ekki svipta menn þessum réttindum nema ég geti sýnt fram á að þeir hafi með einhverjum hætti farið á svig við lög og reglur.